Vilja að ákvörðun um skert lýðræði verði hnekkt

„Það er undarlegt að sömu flokkar og segjast standa fyrir gagnsæi og auknu lýðræði skuli standa að því að stórskerða aðgengi kjörinnar fulltrúa að stjórnkerfi borgarinnar,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista. „Aðgengi smærri flokka að ráðum og nefndum borgarinnar var nánast þurrkað út með breytingum fráfarandi meirihluta á samþykktum borgarstjórnar stuttu fyrir kosningar og hinn nýi meirihluti hefur ekki enn sýnt fram á að hann ætli að leiðrétta þetta.“ Sanna vísar til þess að í apríl voru gerðar breytingar á samþykktum borgarstjórnar sem felldu burtu rétt þeirra flokka sem ekki náðu kjöri í ráð og nefndir að skipa áheyrnarfulltrúa með tillögurétti.
Með því lokast að mestu aðgengi fámennra borgarstjórnarflokka að stjórnkerfi borgarinnar. Daníel Örn Arnarson varaborgarfulltrúi Sósíalista segir að með þessu séu áhrif borgarfulltrúa í minnihluta verulega skert „Að óbreyttu fá minnstu flokkarnir aðeins setu í tveimur ráðum og áheyrn í tveimur til viðbótar eða aðkomu að fjórum ráðum af um tuttugu mikilvægum ráðum og nefndum borgarkerfisins.“
„Við fáum aðeins takmarkaðan aðgang að stjórnkerfinu, þátttöku í litlum hluta þess en að öðru leyti bara skráargat að kíkja í gegnum, aðgengi að samþykktum mála eftir að þau hafa verið afgreidd,“ segir Daníel.

Varasöm notkun á almannafé

Þá gagnrýna Sósíalistar einnig ríkisstyrki til stjórnmálaflokka og segja slíka styrki skekkja lýðræðislega umræðu „Við fundum vel fyrir þessu í kosningabaráttunni. Þegar flokkarnir voru komnir á fullt í auglýsingum var erfitt að koma nokkru vitrænu í gegnum þann múr. Það er mjög undarleg ráðstöfun að almenningur sé látinn borga fyrir langar sjónvarpsauglýsingar þar sem forysta valdaflokka dregur upp glansmynd af sjálfum sér,“ segir Daníel.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila