Åkesson lýsir yfir sigri: „Núna hefst vinnan við að gera Svíþjóð aftur að góðu landi“

Bæði Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata t.h., Ulf Kristersson formaður Móderata og ​​Ebba Busch, formaður Kristdemókrata t.v., lýsa yfir sigri í kosningum og tilkynna að vinnan við að setja saman nýja ríkisstjórn sé að hefjast. Eftir að talning á útlandsatkvæðum fór fram miðvikudag styrktist hægri blokkin og fékk einn þingmann til viðbótar, þannig að hægri hliðin leiðir með 176 þingmönnum yfir 173 þingmönnum vinstriblokkarinnar.

Jimmie Åkesson: „Nóg komið af misheppnaðri stefnu sósíaldemókrata undanfarin átta ár“

Jimmie Åkesson skrifar á Facebook, að Svíþjóðardemókratar hafi staðið í frábærri kosningabaráttu og að sænska þjóðin hafi kosið valdaskipti í landinu eftir vanstjórn vinstri manna:

„Sænska þjóðin hefur sagt sitt og það má draga tvær jákvæðar ályktanir af niðurstöðunni. Í fyrsta lagi hefur flokkurinn okkar verið með frábæra kosningabaráttu og við erum sá flokkur, sem eykur mest fylgið. Svíþjóðardemókratar eru núna næststærsti flokkur landsins. Ég vil færa kærar og innilegar þakkir til allra flokksvina um allt land, sem á margvíslegan hátt hafa stuðlað að þessum árangri. Þetta er sameiginlegt átak okkar, sameiginlegur árangur okkar. Við höfum öll ástæðu til að vera stolt í dag.“

„Í öðru lagi þá hefur sænska þjóðin kosið um valdaskipti. Árangurinn í kosningunum, bæði hjá blá-gulu hliðinni og okkar flokk, felur í sér mikla ábyrgð gagnvart kjósendum. Við munum þeirri sýna þá ábyrgð og stjórna á bestan hátt, með dýpstu virðingu. Það er komið nóg af misheppnaðri stefnu sósíaldemókrata, sem haldið hafa áfram að leiða landið í ranga átt undanfarin átta ár. Tíminn er kominn til að hefja endurreisn öryggis, velferðar og samheldni. Það er kominn tími til að setja Svíþjóð í fyrsta sætið. Svíþjóðardemókratar munu vera uppbyggjandi og leiðandi afl í þeirri vinnu.“

„Nú fer í gang ferli til að skilgreina í smáatriðum, hvernig sigurliðið verður byggt upp, sem tekur þann tíma sem þarf, til að byggja upp nýja og stöðuga ríkisstjórn til langs tíma. Það á ekki aðeins við um vinnu á landsvísu. Jafnvel á sveitarstjórnarstigi hafa Svíþjóðardemókratar um alla Svíþjóð tekið framförum og ég vona, að við munum sjá enn fleiri sveitarfélög undir stjórn Svíþjóðardemókrata eftir þessar kosningar. Enn og aftur vil ég senda öllum Svíþjóðarvinum í hinu langa landi okkar kærar þakkir. Nú hefst vinnan við að gera Svíþjóð aftur að góðu landi á nýjan leik.“

Ulf Kristersson lýsir yfir sigri: „Munum mynda sterka ríkisstjórn“

Ulf Kristersson formaður Móderata, segir flokkinn vera sigurvegara kosninganna:

„Svíþjóð hefur fengið kosningaúrslit. Kjósendur hafa sagt sitt. Móderatarnir og hinir flokkarnir okkar megin hafa fengið það umboð, sem við báðum um. Ég hefst þegar handa við að mynda nýja, sterka ríkisstjórn. Ríkisstjórn fyrir alla Svíþjóð og alla landsmenn.“

Gunnar Strömmer, flokksritari Móderata, bendir á að Moderatar hafi gengið til kosninga til að mynda borgaralega ríkisstjórn í samvinnu við Svíþjóðardemókrata og að flokkarnir hafi hafið viðræður strax eftir kjördag. Hann sagði á blaðamannafundi miðvikudagskvöld:

„Þegar kosningaúrslitin voru ljós í kvöld, þá sýnir það sig að þjóðin hefur valið stjórnarskipti og breytingar. Fyrir okkur blasir við að taka ábyrgð á mörgum stórum og krefjandi verkefnum eins og að koma Svíþjóð inn í NATO og leiða ESB-formennskuna á næsta ári. Og að sjálfsögðu einnig að axla ábyrgð á efnahag landsins og fjármálum heimilanna á krefjandi tímum. Það þarf að gera þær pólitísku umbætur, sem þarf til að stöðva skotárásirnar, binda enda á orkukreppuna og rjúfa aðskilnað, sem einkennist af miklu atvinnuleysi og vera háður bótum.“

Ebba Busch: „Svíar kusu um valdaskipti“

„Við höfum fengið kosningaúrslit og sænska þjóðin hefur kosið um valdaskipti! Nú hefst vinnan í sameiningu með hinum flokkunum að setja saman ríkisstjórn. Ég og flokkurinn minn munum vinna að því að gera Svíþjóð betri fyrir alla. Svíþjóð þar sem allir geta verið öruggir og frjálsir til að móta eigið líf. Með áherslu á umönnun, öryggi og velmegun. Þar sem ríkið skilar því sem það á að gera og stjórnmálin leggi sig ekki meira í málin en nauðsyn krefur, sem gerir lífið auðveldara. Hvort sem þú kaust Kristdemókrata eða einhvern annan flokk, þá mun ég berjast fyrir því að gera Svíþjóð betri fyrir þig. Ég hlakka til uppbyggilegra viðræðna, samvinnu, stjórnarmyndunar og í framhaldinu betri Svíþjóð.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila