Án dóms og laga

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari skrifar:

Á Íslandi segjumst við búa í lýðræðisríki, sem virðir mannréttindi. Meginreglan um vernd þeirra kemur fram með ýmsum hætti í stjórnskipan okkar og lögum. M.a. skiptum við ríkisvaldinu í þrjá valdþætti, löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald.

Til mannréttinda heyrir að ekki megi sakfella borgara fyrir refsiverða háttsemi, nema brot sé sannað lögfullri sönnun, eftir að hinn sakaði hefur fengið að verja sig með því að tala máli sínu og véfengja málatilbúnað ákæranda, m.a. sönnunarfærslu sem hann hefur uppi. Það eru handhafar dómsvaldsins sem einir mega kveða upp úr um sök sakaðra manna og þá að undangenginni lögfullri málsmeðferð.

Nú er auðvitað ekki bannað í opnu upplýsingasamfélagi að flytja fréttir af málum, þar sem grunur kann að leika á að brotið hafi verið gegn refsilögum. Þeir sem þetta gera verða samt að gæta sín. Þeim ber skylda til að virða þær takmarkanir sem við öll búum við og felast í að mega ekki fullyrða um sakir annarra borgara, sem þeir sjálfir segja rangar, án þess að um þær hafi verið fjallað á agaðan hátt fyrir dómi og þá með þeirri niðurstöðu að sök hins sakaða manns teljist sönnuð eftir að hann hefur notið óskerts réttar til að færa fram varnir sínar. Við verðum reglulega vör við að þessar einföldu meginreglur eru brotnar og þar með réttur þeirra sem fyrir sökum eru hafðir. Á síðustu tímum hefur t.d. sökuðum borgurum verið meinað að taka þátt í íþróttakappleikjum ef þeir hafa verið sakaðir um brot, sem þeir segjast ekki hafa framið og ekki hafa verið sönnuð.

Ég hygg að hér séu blaða- og fréttamenn í mestri áhættu um að brjóta af sér. Það freistar þeirra stundum að birta frásagnir af borgurum sem fela í sér dylgjur og jafnvel beinar fullyrðingar um lögbrot þeirra. Þeir slá sjálfa sig þá til riddara fyrir slíkt hátterni; kalla sig „rannsóknarblaðamenn“ og gefa þá í skyn að þeir hafi höndlað sannleikann um afbrot og megi því sakfella þann sem í hlut á, þó að alls ekki hafi verið fjallað um ætlaða sök hans með þeim hætti sem hið siðaða þjóðfélag krefst að gert sé. Almenningur gætir sín oft ekki á þessu. Menn taka þá oft undir svona sakfellingar og hrópa jafnvel húrra fyrir hinum glaðbeitta ákæranda.

Svona „dómar“ eru oftast mjög meiðandi fyrir þá sem fyrir sökum eru hafðir hvort sem þeir hafa brotið af sér eða ekki. Menn ættu að muna að þeir kunna sjálfir að verða fyrir barðinu á svona ásökunum og sakfellingum án þess að hafa fengið að njóta þess réttar sem lög mæla.

Ég aðhyllist þá aðferð við sakfellingar sem réttarríkið beitir. Hvað um þig lesandi góður?

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila