Arnar Þór skrifar: Hvorki fugl né fiskur

Grein eftir Arnar Þór Jónsson.

Samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu er nú kominn ,,vindhani“ á kirkjuturninn á Bessastöðum, 25 árum eftir að krossinn var fjarlægður þaðan. Af ljósmyndum að dæma stendur þó vindhaninn ekki vel undir nafni, því hann ber ekkert slíkt svipmót. Hin djúpa táknmynd vindhanans er því ósýnileg á kirkjuturninum.

Á göngu um Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum veitti ég eftirtekt skreytingum á kirkjuturnum þar og kynnti mér í framhaldi táknfræðina að baki. Eftirfarandi línur eru ritaðar eftir minni en hvetja vonandi einhverja til að kafa nánar í þessi fræði.

Kúlan á turnunum (e. orb) táknar hið veraldlega vald, sem samkvæmt kristindómnum lýtur æðra valdi. Á kirkjuturnum er þetta táknað með því að kúlan er fyrir neðan kross eða hana. Hani er táknmynd sannleikans. Mynd hans skírskotar til þess hvernig Pétur afneitaði Kristi þrisvar áður en haninn gól. Þannig er haninn táknmynd hugrekkis, þ.e. þess sem snýr gegn vindum samtímans og talar gegn straumnum. Haninn sér ljósið á undan öðrum og vekur fólk sem enn sefur í myrkrinu. Á tímum allsherjarblekkinga, þar sem öllu er snúið á hvolf, hið illa kallað gott og hið góða illt, myrkur er gert að ljósi og ljós að myrkri, þá er skreytingin á kirkjuturni Bessastaða í raun kannski lýsandi fyrir menningarástand þjóðar, sem er u.þ.b. að missa sjónar á föstum lagalegum, sögulegum, trúarlegum og siðferðilegum kennileitum, ráfar um i villu, er ólæs á táknmyndir og dæmisögur og hefur því m.a. bitið í sig þá ranghugmynd að vindhaninn sé táknmynd vingulsháttar, þ.e. þess sem sveiflast með almenningsálitinu á hverjum tíma.

Í kristinni táknfræði er haninn táknmynd hugrekkis og fiskurinn táknmynd Krists, sbr. skammstöfunina PX á grísku sem samsvarar KR á latnesku.

Skreytingin á Bessastaðakirkju er því miður hvorki fugl né fiskur. Hún gefur til kynna að ekkert standi ofar veraldlegu valdi. Í sögulegu samhengi má slíkt heita hættuleg ranghugmynd sem gefið hefur valdhöfum frítt spil til að umbreyta lögum í valdbeitingartæki. Verstu alræðisríki 20. aldar voru guðlaus ríki, sem gerðu pólitíska hugmyndafræði að trúarbrögðum og gerðu leiðtoga sína að átrúnaðargoðum almennings. Í stuttu máli er allt rangt við þessa turnskreytingu, m.a.s. ártalið, því eins og fram kemur í yfirlýsingu forsetans í gær var byggingarárið ekki 1823 heldur 1796. Í fyllingu tímans verður þetta vonandi allt fært til betri vegar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila