Augljós hnignun og úrkynjun alþingis

Magnús Þór Hafsteinsson skrifar:

Ég er búinn að vera mjög hugsi yfir þessu síðan þetta var tilkynnt. Um stórmál er ræða. Hér köstum við Íslendingar teningunum og förum yfir Rubicon-fljót, leidd áfram og hugsanlega ofan í ginnungagapið af okkar eigin kjörnu fulltrúum.

I.

Í fyrsta sinn í sögunni fjármögnum við Íslendingar vopnakaup til að limlesta og drepa manneskjur. Þetta markar alvarleg vatnaskil hjá herlausri þjóð hverrar fulltrúar voru lengst framan af boðberar friðar. Afar slæmt er að þetta gerist án þess að nokkur umræða fari fram – að minnsta kosti ekki fyrir opnum tjöldum svo landsmenn (hverra ríkisstjórn og þing situr í umboði fyrir) fái að fylgjast með. Þátttaka í kaupum á skotfærum handa þjóð sem er ekki bandalagsþjóð okkar í NATO er nefnilega bein hlutdeild í banaspjótum og atar hendur okkar blóði – við fáum líf manna á samviskuna.

Þingið tekur þessa ákvörðun ekki til efnislegrar meðferðar. Þetta er tilkynnt eftir að þingmenn eru farnir í páskafrí. Eðlileg málsmeðferð hefði verið að lögð hefði verið fram þingsályktunartillaga um þetta („Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ….“ o.s.frv.), hún rædd í þingsal, færi gegnum utanríkismálanefnd og síðan meiri umræður áður en þingmenn greiða um hana atkvæði í heyranda hljóði. Varaformaður utanríkismálanefndar, sem merkilegt nokk er í „friðarflokknum“ Vinstri grænum, er látinn komast upp með að segja að „breiður stuðningur sé við þetta“ (væntanleg manndráp með sprengjum keyptum fyrir fjármuni íslensku þjóðarinnar) í þinginu. Meðvirkir fjölmiðlar spyrja engra gagnrýnna spurninga. Formenn stjórnarflokkanna eru hvergi sjáanlegir. Stjórnarandstaðan þegir í kór.

II.

Reyndar er það svo að hnignun og úrkynjun alþingis er greinileg. Það að þingheimur lætur sér vel lynda við að tengt sé framhjá honum með þessum hætti er bara ein birtingarmynd þessa. Full ástæða ætti að vera til að spyrja hvers vegna ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru trekk í trekk látnir komast upp með að tilkynna og „ákveða“ hundraða milljóna og milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð án þess að slíkt hafi hlotið þinglega meðferð. Þetta eru að mínu mati ítrekuð stjórnarskrárbrot en í 41. grein hennar segir: „Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“ Þingmenn láta þetta gerast.

III.

Við stöndum nú á barmi stórstyrjaldar í okkar heimshluta. Staðan gerist ískyggilegri með hverri viku sem líður. Ástandið er afar viðkvæmt og stórhættulegt. Ekkert má útaf bera til að allt fari í bál og brand. NATO og Rússland eiga í stríði og nóg að hlusta á málflutning framkvæmdastjóra NATO til að sannfærast um það. Ofan á þetta bætist svo hryðjuverkaógnin. Íslamistar leika lausum hala. Ein birtingarmynd þessa er að Frakkland er nú í hámarksviðbúnaði vegna hættu á slíkum voðaverkum. Önnur er að í Noregi eru lögreglumenn nú um páskana látnir bera skotvopn þar sem sérstaklega er gætt að kirkjum og kristnum samkomum. Þetta hefur aldrei gerst fyrr. Allir vita við hvaða ógn er verið að reyna að bregðast við með þessum hætti í þessu nágrannalandi okkar. Það er að sjálfsögðu ekki sagt frá þessu í íslenskum fjölmiðlum hverra fréttaflutningur verður stöðugt einkennilegri og markaður hluttekningu með stjórnvöldum og þeirra stefnu.

IV.

Hér á landi er þjóðarskútan látin reka á reiðanum og við fljótum að feigðarósi. Þrátt fyrir að rúm tvö ár séu síðan Úkraínustríðið hófst, Gazastríðið hafi bætt gráu ofan á svart og líkurnar á stórstyrjöld aukist stöðugt, sinna kjörnir fulltrúar hvergi því að auka viðnámsþrótt íslensks samfélags ef slík átök brjótast út. Hagvarnir eru í algeru lamasessi, það er ekkert gert til að bæta úr birgðastöðu innanlands þegar kemur að lífsnauðsynjum. Olíufélögin eru byrjuð að selja drulluna úr botnum tanka sinna sem „eldsneyti“ vegna þess að þeir eru tómir. Allt hugsandi fólk veit að við búum á eyju og við erum mjög háð aðflutningum á ýmsum varningi og olíum. Við erum með raforkukerfi sem stendur á brauðfótum öryggislega séð. Er ekki nær að huga að hagvörnum okkar og öryggisinnviðum í staðinn fyrir að kaupa skotfæri til að slasa og drepa Rússa? Til dæmis kaupa þurrmat, lyf og sjúkragögn og eldsneyti, því ef sama þróun heldur áfram á alþjóðavettvangi verður stríð og það gæti orðið fyrr en margir halda.

Á stóralvarlegum hættutímum taka alþingismenn á sig enga rögg í þeim efnum til að efla innra öryggi og þanþol eigin þjóðar komi til þeirrar styrjaldar sem nú stefnir í. Frekar vinda menn sér í það verkefni að drepa Rússa (sem gætu vissulega átt eftir að svara fyrir sig). Og mitt í öllum vesaldómnum er stofnaður „þingkór“ til að gaula gamlar drykkjuvísur og rútubílasöngva og hlaupið í páskafrí – viku áður en páskar hefjast. Guðirnir mega vita hvenær þetta lið snýr aftur úr fríinu en sennilega skiptir það engu máli því það er vita gagnslaust og gerir jafnvel meira tjón en ella þegar það er „að störfum“. Ábyrgðarleysið og dugleysið er slíkt að manni fallast hendur.

Gleðilega páska.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila