Þetta er klárt og málið leyst! Landsbankinn á pening og getur keypt hlut í Íslandsbanka af ríkinu og þarf ekki að fara að braska með einhver tryggingafélög!
Þá verður hægt með timanum að fækka bönkum og stækka Landsbankann og gera hann að öflugum 100% þjóðarbanka án áhrifa áhættusækinna „fjárfesta“ sem mundu setja hann á hausinn fyrr eða síðar.
Bábiljuspekingar eru enn til sem vilja einkavinavæða helst allt sem ríkið á, þeir einkavinavæddu gömlu ríkisbankana og komu á regluverki EES sem saman rústaði bankakerfinu og skattgreiðendur fengu allt í fangið https://www.frjalstland.is/2023/10/08/hrunid-fimmtan-ara/ Og nú segja þeir að ríkið eigi að selja sinn hlut í bönkum og nota féð í „innviði“.
Gáfnaljósin meðal þessara bábiljuspekinga eru ekki vitrari en svo að þeir átta sig ekki á að bankar eru með mikilvægari innviðum hvers lands. Stór banki í eigu ríkisins mundi leiðrétta á vissan hátt hina glæpsamlegu einkavæðingu bankakerfisins og efla uppbyggingu unga fólksins.
Einkavæðing bankanna var ein af verstu gerðum íslenskra stjórnmálamanna síðari tíma sem ásamt með lögleiðingu EES fór nærri því að setja Ísland í þrot. Þrátt fyrir að neyðarlög hafi tekið EES úr sambandi og Sigmundur Davíð hafi sigrað braskarana og bjargað ríkissjóði standa endursmíðuð bankaflökin og EES-áþjánin í vegi fyrir að unga fólkið geti byggt upp sinn efnahag, regluverkið er hannað fyrir staðnað og fátækt landsvæði ESB. https://www.frjalstland.is/2023/07/01/fataektarmenning/