Biðja um alþjóðlega aðstoð til að takast á við sænska glæpahópa í Noregi

Norska lögreglan biður um alþjóðlega aðstoð til að takast á við sænska glæpahópa eins og Foxtrot, sem hafa komið yfir landamærin og staðsett sig í Noregi og stunda glæpi þar aðallega á eiturlyfjamarkaðinum. „Við vitum að þeir taka þátt í ofbeldisfullum verkum“ skrifar Åste Dahle Sundet, fjölmiðlafulltrúi rannsóknardeildar norsku lögreglunnar Kripos.

Fyrr í vikunni tilkynnti norska lögreglan, að sænsk glæpasamtök hefðu hreiðrað um sig í landinu í samstarfi við glæpahópa í Noregi, að sögn sænska ríkisútvarpsins, SR. Norska lögreglan upplýsti að meðal annars væri að ræða um hin alræmdu glæpasamtök Foxtrot sem eru að baki miklu af því ofbeldi sem hrjáir grannlandið Svíþjóð.

Foxtrot glæpahópurinn kominn á norska eiturlyfjamarkaðinn

Dómsmálaráðherra Noregs heimsótti Svíþjóð í vikunni til að ræða aukna glæpastarfsemi og Noregur biður einnig um alþjóðlega aðstoð til að takast á við sænsku klíkurnar samkvæmt Aftonbladet. Meðal annars hefur norska lögreglan séð, hvernig norskir glæpahópar nýta sér samstarf við ofbeldissinnaða sænska glæpahópa til að stunda glæpastörf í Noregi. Í sumar hefur lögregan einnig gert upptækt mikið magn af fíkniefnum sem grunur leikur á að tengist Foxtrot glæpaklíkunni. Åste Dahle Sundet skrifar í tölvupósti til Aftonbladet:

„Það sem við sjáum gerast í Svíþjóð getur komið til Noregs ef við tökum ekki hættuna alvarlega. Í Noregi höfum við góða stjórn á ástandinu og glæpaklíkunum en ógnin frá skipulagðri glæpastarfsemi krefst þess, að norska lögreglan verði sér meðvituð – og vinni stöðugt að rannsóknum til að koma í veg fyrir glæpi með fyrirbyggjandi aðgerðum.“

Yfirvöld Noregs og Svíþjóðar í samvinnu gegn glæpahópunum

Á miðvikudaginn heimsótti einnig Emilie Enger Mehl dómsmálaráðherra Noregs Svíþjóð, þar sem hún og sænski starfsbróðir hennar Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, áttu tveggja tíma fund vegna aukningu glæpahópanna. Emilie Enger Mehl segir í viðtali við sænska sjónvarpið SVT:

„Helsta ráðið sem ég fékk hjá Gunnari Strömmer er að efla forvarnarstarfið og það er líka stefna norsku lögreglunnar.“

Sjá nánar hér, hér og hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila