Clingendael skýrslan: Hvað er Kína að gera á Íslandi og hvers vegna?

Í júní s.l. birti Clingendael stofnunin í Hollandi skýrsluna „Nærvera á undan valdi“ um stefnu Kína á Norðurslóðum. Skýrslan kemur í kjölfar þess að Kína skilgreindi sig sem „Nálægt Norðurskautsríki“ árið 2018 þrátt fyrir að vera víðs fjarri Norðurskauti. Segja skýrsluhöfundarnir Ties Dam, Louise van Schalk og Adája Stoetman að Kína hafi byggt upp heimsstefnu á Norðurslóðum sem ekki sé hægt að brosa að. Leitast höfundar við að svara spurningum eins og þessum: Hvað drífur Kína áfram langtímalega séð að vera með á Norðurslóðum? Hvernig myndar Kína sambönd á Norðurslóðum? Hvernig á ESB og Holland að nálgast vaxandi nærveru Kína á Norðurslóðum? Skýrslan tekur sérstaklega fyrir stefnu Kína á Norðurslóðum eins og hún birtist á Íslandi og Grænlandi og á því fullt erindi til allra Íslendinga sem annt er um land sitt og þá möguleika og þær hættur sem hnattstaða Íslands hefur í för með sér í heimi vaxandi árekstra „þeirra stóru.“

Stærstu kínversku fjárfestingarnar eru á Íslandi og Grænlandi

„Af öllum löndum Norðurslóða hafa Ísland og Grænland boðið inn mestu kínversku fjárfestingunum miðað við verga þjóðarframleiðslu.“ Í skýrslunni segir að saga Kína á Íslandi hafi byrjað í fjármálakreppunni 2008. Þá hafi aðildarumsóknin að ESB ekki gengið eftir vegna deilna um fiskimiðin 2013 og að Ísland hafi ekki átt aðgang að svæðasjóðum ESB til að ná sér aftur á strik eftir fjármálakreppuna. Ísland skapaði sögu með því að verða fyrsta landið í Evrópu sem gerði fríverslunarsamning við Kína sem gert hafi Kína einn af þremur mikilvægustu útflutningsmörkuðum Íslands. Samstkipti landanna hafi síðan dafnað með eitt af stærstu sendiráðum Kína í heimi staðsett í Reykjavík.

Saga samskipta Íslands og Kína

1941 | Bandaríkin taka við varnarmálum Íslands og staðsetja tugi þúsunda hermanna þar
1944 | Lýðveldisstofnunin. Ísland gerist meðlimur Atlantshafsbandalagsins
1994 | Ísland gengur með í EES
1970 | Ísland gengur með í Fríverslunarsamband Evrópu
2006 | Bandaríkjaher flytur frá Íslandi
2008 | Fjármálakreppan skellur á Íslandi, bankakerfið hrynur
2009 | Ísland sækir um aðild að ESB
2010 | Enex skrifar undir samning um að bora fyrir jarðvarma í Kína
2010 | Seðlabanki Kína býður 3,5 milljarða yuan/51 milljarða ískr/370 milljóna evru gjaldeyrisviðskipti við Seðlabanka Íslands
2011 | Kínverski fjármálajöfurinn Huang Nubo reynir að kaupa landssvæði á Íslandi
2012 | Kína og Ísland skrifa undir samstarf á Norðurslóðum sem var fyrsti milliríkjasamningur Kína við land á Norðurslóðum.
2013 | Umræður um aðild að ESB sigla í strand
2013 | Ísland skrifar undir Fríverslunarsamning við Kína sem fyrsta ríkið í Evrópu
2013 | Gjaldeyrisviðskipti Kína og Íslands endurnýjuð
2016 | Gjaldeyrisviðskipti Kína og Íslands endurnýjuð
2018 | Kínverska olíufyrirtækið CNOOC (China National Offshore Oil Corporation) og olíufyrirtæki Noregs hætta olíuleitun í íslenskri sjávarlögsögu
2018 | Kína býður Íslandi að taka þátt í Belti og Braut verkefninu
2019 | Varaforseti Bandaríkjanna hrósar Íslandi fyrir að hafa hafnað Belti og brautartilboði Kína án þess að Íslendingar hafi gert það.

Norðurljósastöð í raun og veru gervitunglastöð

Skýrslan bendir á að Ólafur Ragnar Grímsson hafi myndað hringborð Norðurslóða á sama degi og fríverslunarsamningur Íslands og Kína var undirritaður og að Kína hafi verið með þar frá upphafi, þótt Kína sé ekki Norðurslóðaríki. Rekin eru vandræði Íslendinga að fá lán eftir bankahrunið og fullyrt að Kína hafi notfært sér þá stöðu fyrir eigin ávinning. Sagt er að Ísland vonist eftir auknum útflutningi á fiskafurðum og kunnáttu við jarðhita og að Kína sé í raun háð Íslandi með þá þekkingu, þar sem Ísland sé eini samstarfsaðili Kína á sviði jarðvarmaorku. Rakin er saga orkufyrirtækja, kínverskra og íslenskra t.d. að Orka Engergy hafi unnið með Sinopec og stofnað Shaanxi Green Energy Geothermal Dvelopment (SGE) þar sem kínverska Shaanxi á 51%. Samningar á milli kínverska Star Petroleum Company og Geysir Green Energy og lán frá Þróunarbanka Asíu að upphæð 250 milljónir dollara til Iceland´s Arctic Green Energy Corporation og kínverska Sinopec (SNPMF).

Jarðhitamarkaðurinn í Kína talinn geta verið allt að andvirði 11,3 milljarða dollara fyrir Ísland en að dregið hafi verulega úr framkvæmdum og óljóst hvort Ísland geti komið þeim af stað aftur. Bent er á að skoðunarstöð Norðurljósa sem Kína kostaði sé í raun og veru eftirlits- og stjórnunarstöð með gervitunglum sem veki spurninguna um hvort nærvera Kína á Íslandi sé vegna langtíma hernaðarlegra sjónarmiða. Niðurstöður skýrsluhöfundar eru að Kínverjar hafi notfært sér strandaðar viðræður Íslands og ESB til að ná áhrifum og fyllt í skarðið þegar lánalínur voru lokaðar til Íslands eftir bankahrun. Passar sú lýsing vel við heimsóknir íslenskra ráðamanna til Kína (Jóhanna Sigurðardóttir, Ólafur Ragnar Grímsson, Össur Skarphéðinsson) og heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands.

Sendiráð með aðstöðu fyrir 500 starfsmenn

Skýrsluhöfundar spyrja hvað vaki eiginlega fyrir Kína að byggja stærsta sendiráð í Evrópu einmitt í Reykjavík. Það hafi aðstöðu fyrir 500 starfsmenn en standi að mestu tómt vegna þess að einungis 5 kínverskir starfsmenn sendiráðsins séu opinberlega skráðir á Íslandi. Spyrja skýrsluhöfundar hvort það sama vaki fyrir Kína og prins Grigory Pótemkín sem lét byggja falska bæi og mála framhliðarnar til að hafa áhrif á Katarínu miklu. Er stefna Kína á Íslandi dæmi um stórslegna stefnu eða kínversk hernaðarlist í anda Pótemkín? Höfundar segja hafið yfir allan vafa að nærvera Kína á Íslandi sé vegna heimsvaldastefnu Kína og hvort svo sem sendiráðið sé tómt eða ekki, þá hafi Kína tekist að áreita Bandaríkin með stefnu sinni.

Hvaða utanríkisstefna er í gangi á Íslandi?

Skýrslan dregur upp á skýran hátt samstarf Kína og Íslands í Belti og Braut og yfirlýsingu varaforseta Bandaríkjanna sem hrósaði Íslandi fyrir að hætta við að vera með í Belti og Braut. Ekkert bóli hins vegar á yfirlýsingu íslenskra yfirvalda um að Ísland sé hætt í Belti og Braut og velta höfundar því fyrir sér, hvort varaforsetinn hafi með yfirlýsingunni verið að reyna að hafa áhrif á utanríkisstefnu Íslands. Skýrslan bendir á aukin umsvif Rússa á Norðurslóðum og núna nærveru Kína gegnum Ísland og Grænland sem vakið hafi bæði Bandaríkin og Nato til að gæta sinna hagsmuna á Norðurslóðum.

Gráir nashyrningar og svartir svanir

Niðurstöður skýrsluhöfunda er að Kína lítur á Norðurslóð sem eitt af heimsmikilvægum svæðum fyrir sig sem vaxandi stórveldi. Viðurkennd þáttaka og nærvera á Norðurslóðum í dag er hluti af stóru langtímaverkefni með langtímamarkmiðum sem skift er niður í smærri einingar sem við sjáum í dag. Segir skýrslan að Xi Jinping aðalritari Kommúnistaflokks Kína skipti hlutunum upp í „Gráa nashyrninga“ sem eru sjáanlegar hættur til langtíma litið og „Svarta svani“ sem ekki sjást fyrirfram en eru oft litlir atburðir að því er virðist við fyrstu sýn en geta breytt gangi mála eins og fjármálakreppan 2008 eða Kórónukreppan 2020. Sem dæmi um „Svarta svani“ telja höfundar vera efnahagshrun á Íslandi, stjórnmálalegt/efnahagslegt hrun í Rússlandi og sjálfstæðishreyfingu á Grænlandi. Sem dæmi um „Gráa nashyrninga“ telja höfundar vera endurhervæðingu Norðurslóða, vaxandi áreitni milli Bandaríkjanna, Rússlands og Kína, öryggismál tengd loftslagsbreytingum m.m.

Ísland er brú Kína til framtíða valdastöðu á Norðurslóðum

Höfundar segja nærveru Kína á Norðurslóðum fjalla um að Kína byggi upp kraft til að geta tekið ákvarðanir þegar ógnir Gráu nashyrninganna verða að raunveruleika og einnig til að geta á snöggan hátt nýtt sér kreppur Svörtu svananna fyrir eigin ávinning eins og Kína gerði eftir fjármálahrunið á Íslandi. Kína er nægjanlega stórt til að geta verið alls staðar. Kína byggir upp nærveru áður en Kína tekur völdin og Kína veit að hægt er að græða peninga, þegar aðstæðurna krefjast.

Kína hefur á kerfisbundinn hátt nýtt sér aðstæðurnar –sérstaklega á Grænlandi og Íslandi – til að skapa nærveru og verða viðurkennt heimsveldi á Norðurslóðum. Með þáttöku sinni mótar Kína þegar heimsmálin í þessum heimshluta.

Má segja að skýrsluhöfundar telji Kína notfæra sér Ísland og Grænland til að byggja upp framtíða valdastöðu á Norðurslóðum. Ísland er því brú í vegferð Kína til heimsyfirráða í okkar heimshluta. Það er alvarlegt íhugunarmál að kynna sér skaðann af samstarfi Íslendinga og Kína sem rekja má til ferða íslenskra krata og vinstri manna til Peking eftir bankahrun. Það er einnig gjörsamlega óásættanlegt að ríkisstjórn Íslands skuli hafa svo óljósa utanríkisstefnu, að hvorki landsmenn né aðrir skilja hvert landið er að fara.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila