Dauðans alvara

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar:

Á liðnum árum hef ég einatt fundið að íslenskum stjórntökum á málefnum sem skipta okkur öll miklu máli. Þá hef ég oft beint skeytum að Sjálfstæðisflokknum sem ég hef stutt vegna þess ég hef talið að hann væri líklegastur til endurbóta. Hann hefur nú lengi verið í samvinnu við þann stjórnmálaflokk sem ég hef talið mesta afturhaldið í stjórnmálunum hérlendis. Og nú stendur til að endurnýja bræðralagið, þó að ákjósanlegt tækifæri hafi gefist til að slíta því. Lítum á nokkur atriði sem koma upp í hugann.

Íslendingar ættu að geta verið sammála um að vistvænar orkuauðlindir okkar í fallvötnum og jarðvarma hljóta að teljast með allramestu auðlindum sem þjóðin á. Sérstaklega á þetta við í heimi sem sveltur af orkuskorti. Við ættum því að virkja þessar auðlindir baki brotnu og gera ráðstafanir til að koma orkunni til annarra þjóða eða leyfa erlendum mönnum að nýta hana hér á landi. En það gerist ekki. Og ástæðan er sú að svonefndir áhugamenn um óspillta náttúru hindra það. Þeir tilheyra flestir afturhaldinu sem Sjálfstæðisflokkurinn vinnur með og lætur stjórna ser á margan hátt. Þetta gerist þó að ekki sjáist að virkjanir valdi neinum náttúruspjöllum.

Við erum, eins og aðrar þjóðir kringum okkur, búin að koma okkur í alvarleg vandræði vegna innflutnings fólks, sem er að flýja bágborið ástand heima fyrir. Engin leið virðist vera til að koma böndum á þessa vá í nafni lands og þjóðar. Þar hefði helst átt að vera unnt að treysta á Sjálfstæðisflokksins. En hann bregst.

Það er greinilegt velferðarmál fyrir þjóðina að hindra frekari skattaáþján í landinu. Það gerist ekki. Þvert á móti eykst hún. Og Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt vexti hennar og viðgangi.

Það er stundum ógnvænlegt að sjá hvernig handhafar þriðja valdþáttarins, dómstólarnir haga sér. Þeir telja sig hafa vald til að setja lög í samkeppni við löggjafann, Alþingi. Og gera það óspart. Verst er þegar þeir láta sig hafa það að beita menn refsiviðurlögum þó að þeir hafi ekkert brotið af sér. Þá láta þeir sig hafa það að breyta skilyrðum laga til refsinga með því að breyta lögum um leið og dómar eru upp kveðnir. Þessi háttsemi dómstólanna er stundum verri en brotin sem sakborningar eru ákærðir fyrir. Og Sjálfstæðisflokknum virðist standa á sama um þetta.

Dómarar fá sjálfir að ráða því að þeir sitja óþarflega margir, a.m.k. við æðsta dómstólinn, Hæstarétt. Það er til þess að þeir geti aflað sér aukatekna í öðrum störfum og skroppið í orlofsferðir til útlanda, þegar þeim þóknast. Svo eru þeir búnir að ná undir sig valdinu til að skipa vini sína og kunningja í dómarahópinn þegar staða losnar. Þetta eru handhafar þess þáttar ríkisvaldsins, sem næst gengur borgurunum. Undir þá heyrir m.a. að dæma menn til refsingar, svipta þá forræði yfir börnum sínum og leggja fjárhag þeirra í rúst svo dæmi séu tekin. En öllum virðist vera sama svo lengi sem þeir sjálfir lenda ekki í klóm þessara valdsmanna, sem eru ábyrgðarlausir af misgjörðum sínum. Þeir sitja áfram í stöðum sínum svo lengi sem þeir eru ekki taldir hafa keypt sér meira áfengi en sæmilegt er talið, þó að þeir hafi þá engar lagareglur brotið.

Og Sjálfstæðisflokkurinn lætur eins og honum komi þessar misgjörðir ekki við, þó að á það sé ítrekað bent með eftirminnilegum hætti.

Um víða veröldina sjáum við að þjóðum vegnar best, þar sem ríkisafskipti af atvinnulífinu eru minnst. Þar bera þeir sem minnstar hafa tekjurnar miklu meira úr bítum heldur en hliðstæðum hópum í ríkjum sem beita borgarana valdskotnum ákvörðunum valdhafanna sem oftast eru af einhverri tegund sósíalista og þykjast helst hugsa um hag þeirra sem minnst hafa. Þeir eru samt leiddir til slátrunar ef þeir andæfa stjórntökum valdsmanna. Og Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í því hér á landi að beita borgara valdbrögðum af sósíalískum toga, þó að aftökum sé ekki beitt.

Ég gæti talið upp mörg fleiri dæmi um skaðvænlega stjórnarhætti valdhafa í okkar landi. Þetta stafar oftast af því að sá flokkur, sem við héldum að treysta mætti, bregst vonum okkar. Hann situr árum saman við völd í skjóli vinstrisinna sem vilja beita menn ofríki í þágu sósíalismans. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn óttist nú ekkert frekar en að ganga til kosninga. Þá virðist valdasetan skipta meira máli en velferð landsmanna.

Hvenær fáum við nóg?

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila