Dmitrij Medvedev: „Viljið þið hafa Iskander eldflaugar, eldflaugar á ofurhraða og skip hlaðin kjarnorkuvopnum steinsnar frá heimilum ykkar?“

Dmitry Medvedev varaformaður öryggisráðs Rússlands spyr Finna og Svía, hvort þeir sækist eftir því að hafa Iskander eldflaugar, eldflaugar á ofurhraða og skip hlaðin kjarnorkuvopnum steinsnar frá heimilum sínum, en Rússland mun mæta inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í Nató með gríðarlegri hernaðaruppbyggingu meðfram landamærum að Finnlandi og við Eystrarsalt (mynd: Kreml/skjáskot).

Dmitry Medvedev, varaformaður öryggisráðs Rússlands, skrifar á Telegram, að Rússar „verða að styrkja landamærin“ við Finnland ef Finnland og Svíþjóð ganga í Nató. Medvedev, sem áður var bæði forseti og forsætisráðherra Rússlands, skrifar að það sé „ekki svo mikilvægt“ fyrir Rússland hvort Nató samanstandi af „30 eða 32 löndum.“ Hins vegar segir hann það hafa þýðingu, að bein landamæri hernaðarbandalagsins við Rússland séu stækkuð enn frekar. Samnytt segir frá:

Kjarnorkuvopn á Eystrasalti

Medvedev bendir á:

„Ef Svíþjóð og Finnland ganga í Nató munu landamæri bandalagsins að Rússlandi meira en tvöfaldast. Auðvitað þarf þá að efla varnir við þessi landamæri með hermönnum á jörðu niðri, loftvörnum og umtalsverðum sjóher, sem verður staðsettir í Finnska flóanum.“

Sergej Sjojgu varnarmálaráðherra Rússlands segir Rússa uppfæra allan kjarnorkuvopnabúnað og setja í viðbragðsstöðu „þar sem kjarnorkuvopnaskjöldurinn sé eina trygging Rússlands til að verja landhelgi sína og landssvæði.“

Medvedev sem er yfirmaður rússneskra öryggismála skrifar einnig, að ef Svíþjóð og Finnland gangi í Nató „þá verður ekki lengur hægt að tala um kjarnorkuvopnalaust Eystrasalt – koma verði jafnvægi á að nýju.“ Hann fullyrðir, að Rússar hafi ekki gert neinar slíkar ráðstafanir hingað til.

Ekki Rússum að kenna

Dmitry Medvedev telur að „innlendir áróðursmeistarar“ hafi reynt að efla stuðning við Nató meðal Finna og Svía og því ekki hægt að kenna „sérstöku hernaðarátaki“ Rússa í Úkraínu um umsóknir landanna. Hann segir, að Rússlandi ógni hvorki Finnlandi né Svíþjóð og skrifar:

„Enginn heilvita maður vill hærra vöruverð og skatta, aukna landamæraspennu, Iskander eldflaugar, háhraðavopn og skip með kjarnorkuvopnum steinsnar frá heimilum sínum. Við skulum vona, að skynsemi nágranna okkar á Norðurlöndum sigri. Rússar eiga í engum landhelgisdeilum við þessi lönd eins og við höfum gagnvart Úkraínu.“

Vopn við landamærin

Í vikunni hefur myndböndum verið dreift á samfélagsmiðlum, sem sýna hreyfanleg rússnesk eldflaugakerfi af gerðinni K-300P Bastion-P nálægt landamærunum að Finnlandi. Eldflaugakerfin eru fyrst og fremst hönnuð sem strandvarnarkerfi. Sumir telja hins vegar að myndbandsupptökurnar, sem sýna farartækin greinilega á leið meðfram E-18 í átt að finnsku höfuðborginni Helsinki, séu hræðsluáróður Rússa til að fá Finna til að forðast aðild að Nató.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila