Ekkert þak sett á fjölda innflytjenda – sænskir jafnaðarmenn í baráttu gegn „kerfisbundnu kynþáttahatri og afrófóbíu” Svía

Dalahesturinn er farinn að láta á sjá og rifinn á mörgum stöðum

Stefan Löfven segir í viðtali við Sydsvenskan að ríkisstjórn Svíþjóðar muni ekki setja neitt þak á fjölda flóttamanna sem sækja um og fá landvistarleyfi í Svíþjóð: „Við ætlum ekki að vera með neina ákveðna tölu um fjölda fólks sem leiðir til þess að við getum ekki staðið við réttindi flóttafólks.” Fjöldainnflutningur fólks til Svíþjóðar frá Afríku og Miðjarðarhafslöndunum mun því halda áfram af fullum eða jafnvel meiri þunga í ár.


Miklar umræður hafa verið á sænska þinginu og í samfélaginu um alla þá flóttamenn sem Svíþjóð hefur tekið og heldur áfram að taka á móti. Var útlit um tíma að stjórnarandstæðunni ásamt Vinstriflokknum tækist að koma böndum á hömlulausan straum innflytjenda til Svíþjóðar með því að framfylgja kröfunni að sett yrði þak á þann fjölda sem Svíþjóð getur tekið á móti. Mjög er farið að hrikta í grunnstoðum samfélagsins vegna alls álags á velferðarkerfinu eins og t.d. kostnaði við húsnæði, skóla, uppihald og atvinnuleysisbætur til innflytjenda.

Spenna eykst innanlands í Svíþjóð vegna allra glæpagengja sem oft eiga rætur að rekja til innfluttra glæpa- og hryðjuverkamanna. Er ofbeldið orðið svo mikið að daglega berast fréttir af skotbardögum, ránum, sprengingum og bílaíkveikjum. 


Umhverfisflokkurinn, sem ekki kæmist inn á þing ef kosið væri núna samkvæmt skoðanakönnunum, hótaði sósíaldemókrötum að slíta stjórnarsamstarfinu ef jafnaðarmenn settu þak á hversu marga flóttamenn Svíþjóð gæti tekið á móti og lögðu jafnaðarmenn þá slíkar hugmyndir á ís. 
Í staðinn hefur sænska ríkisstjórnin undir leiðsögn krata hafið baráttu gegn „kerfisbundnum rasisma” og „afrófóbíu” Svía og hefur skipað öllum lénsstjórnum landsins að beina kastljósinu að þessu fári og þá sérstaklega í stórborgunum. Eiga lénsstjórnirnar að skóla upp aðila vinnumarkaðarins svo „afrósænskir þurfi ekki að mennta sig til fræðimanns til að fá sömu laun og aðrir landsmenn með þriggja ára menntaskólamenntun.”  Þá eiga aðilar vinnumarkaðarins að skilja „hvernig óskráðar reglur virka takmarkandi á húðlitað fólk og greina afrófóbíur.”


Jafnréttisráðherra Svía, Åsa Lindhagen frá Umhverfisflokknum segir að „það verður að draga hið kerfisbundna kynþáttahatur fram í dagsljósið sem svo margir bera ómeðvitað með sér. Rasisminn á sér engan stað í Svíþjóð.”


Sjá nánar hér

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila