Fjárfestar hafna grænum verkefnum og vindorku í Svíþjóð

Alþjóðlegir fjárfestar hætta við grænar fjárfestingar í Svíþjóð – sérstaklega vindorku. Svíþjóð sker sig úr frá hinum Norðurlöndunum vegna erfiðleika við að fá erlenda fjárfesta til Svíþjóðar.

Svíþjóð að verða eftirbátur annarra

Ástandið hefur versnað og er orðið erfiðara fyrir langtímafjárfestingar í orkugeiranum í Svíþjóð. Jafnvel fyrir Tidö-samning ríkisstjórnarinnar voru spurningamerki um tímaáætlun, fjármögnun, reglugerðir og stjórnun vindorku úti á hafi. Elin Akinci, orkusérfræðingur hjá ELS Analysis, segir í viðtali við Viðskiptablaðið „Näringslivet“:

„Við erum með töluvert marga fjárfesta og fjármálaaðila í viðskiptum sem eru að bakka úr og það er skýrt merki frá þeim núna.“

Að sögn Akinci snýst málið að miklu leyti um óvissu vegna langs leyfistíma og að ekkert skýrt regluverk sé til staðar um hvernig eigi að fá einkarétt á mismunandi stöðum. Fyrri ríkisstjórn átti frumkvæði að ákveðnum rannsóknum en það sem skrifað er í ríkisstjórnarsáttmálanum bendir til þess að því verði hætt.

Fjárfestar flýja með peningana

Akinci varar við því, að fjárfestar flytji fé burtu frá Evrópu og þá sérstaklega frá Svíþjóð. Margt gerist í Danmörku en lítið í Svíþjóð.

„Önnur lönd setja sér magnmarkmið og koma af stað miklum eftirspurnarörvandi aðgerðum, bæði varðandi vetni, hafsvind og svo framvegis. Svíþjóð sker sig úr á Norðurlöndum, hérna er erfiðast að fá fjárfesta núna.“

„Við þurfum svo sannarlega ekki á ríkisstyrkjum að halda. En það sem er að gerast núna í Evrópu er, að eftirspurnin er studd. Það er hægt að finnast hvað sem er um það en í Svíþjóð standa málin í stað þegar önnur lönd fjárfesta að fullu í grænni tækni. Svíar eiga á hættu að verða eftirbátar.“

Akinci segir það gott, að stjórnvöld „séu að opna fyrir fjárfestingar í nýrri kjarnorku.“

„En það leysir ekki vandamál rafveitunnar hér og nú. Til lengri tíma litið mun það ekki einu sinni duga til, því það vantar allt.“

Hún kallar eftir því, að regluverk veiti stöðug skilyrði fyrir hvers kyns orkufjárfestingum. Svíþjóð hefur í raun allar markaðsaðstæður fyrir grænar fjárfestingar en regluverkið stendur í veginum. Meðal annars þarf að stytta lengsta leyfisferli Evrópu, sem tekur í dag um 10-15 ár.

Deila