Fjöldamorðin og Sameinuðu þjóðirnar

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Starfsmenn stofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, eru grunaðir um aðild að fjöldamorðum Hamas í Ísrael 7. október. Um 1200 manns voru skotin á færi, brennd og afhöfðuð, þar á meðal börn, konur og aldraðir. Hamas tók einnig um 200 gísla.

Fjöldamorðin 7. október eru villimennskan uppmáluð. Hamas sendi morðsveitir gagngert til að myrða saklausa. Aðild starfsmanna UN­RWA og Sameinuðu þjóðanna að fjöldamorðunum kallar á ítarlega rannsókn. Tólf starfsmenn UNRWA eru grunaðir um aðild. Bretar, Bandaríkjamenn og Ástralir hafa fryst greiðslur til Palestínuhjálparinnar. Nú líka Ísland.

UN­RWA er sérstök stofnun sem undirstrikar forréttindastöðu Palestínuaraba. Stofnunin verður til 1949 með ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Engir aðrir flóttamenn í heiminum hafa sérstaka alþjóðlega stofnun til að sjá um þarfir sínar.

UN­RWA segir á heimasíðu sinni að þeir Palestínuarabar sem misstu heimili sín 1948, já fyrir 75 árum, séu flóttamenn ,,sem og afkomendur karlkyns flóttamanna frá 1948 og löglega ættleidd börn þeirra.“ (Innan sviga: hvers eiga mæðurnar að gjalda?).

Árið 1948 var fyrsta stríð nýstofnaðs Ísraelsríkis. Ísraelar höfðu samþykkt skiptingu lands milli gyðinga og araba. En arabaheimurinn í miðausturlöndum hafnaði skiptingunni. Í framhaldi brutust út stríðsátök.

Nú liggur í augum uppi að flestir sem komnir voru til vits og ára 1948 eru látnir. En afkomendur þeirra karla sem glötuðu heimilum sínum 1948 eru enn flóttamenn, samkvæmt skilgreiningu Palestínuhjálparinnar, UNRWA. Enda reka Hamas menn á Gasa-ströndinni flóttamannabúðir í þessu skyni. Þangað streymir frá frá Sameinuðu þjóðunum, þar sem Ísland greiðir sinn hluta.

Frá 1948 eru ógrynni flóttamanna í heiminum, taldir í tugum ef ekki hundruðum milljóna. Enginn fær viðlíka þjónustu Sameinuðu þjóðanna og Palestínuarabar. Hver gæti ástæðan verið? Jú, hún liggur í augum uppi. Á meðan til eru flóttamenn sem í marga ættliði gera kröfu um ísraelskt land er haldið á lofti þeirri kröfu Hamas að Ísraelsríki skuli útrýmt. UNRWA viðheldur ófriðnum milli Ísraela og araba.

Þegar sterkar vísbendingar eru um að starfsmenn flóttamannahjálpar Palestínuaraba, UNRWA, áttu aðild að mestu fjöldamorðum á gyðingum síðan á tímum helfararinnar ættu þjóðir heims að staldra við. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sýnir gott fordæmi með því að frysta greiðslur til UNRWA. Siðmenntaðar þjóðir eiga ekki að fjármagna villimennsku.

Tengd frétt: Frysta greiðslur til UNRWA

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila