Forseti Túnis: Verið að skipta út Aröbum

Forseti Túnis, Kais Saied (mynd © Houcemmzoughi)

„Mikill innflutningur þeldökkra Afríkubúa til Túnis er knúinn áfram af aðilum sem vilja breyta samsetningu fólks í landinu þannig, að aröbum verði skipt út“ segir Kais Saied, forseti Túnis. Ummæli forsetans komu á fundi hans með þjóðaröryggisráðinu.

Al-Jazeera segir frá

Kais Saied forseti Túnis sagði:

„Ósagt markmið með flæði ólöglegra innflytjenda er að Túnis verði eingöngu álitið Afríkuland sem hefur engin tengsl við arabísku og íslömsku þjóðirnar.“

Saied bætti við að hið mikla innstreymi svartra Afríkubúa til landsins yrði að stöðva tafarlaust. Forsetinn lýsti því einnig yfir, að á síðasta áratug hafi vissir aðilar – sem hann nafngreindi ekki – gert það að verkum að afrískir innflytjendur gætu sest að í Túnis gegn greiðslu. Ýmis vinstri samtök fordæma yfirlýsinguna harðlega. Þannig segir Romdhane Ben Amor, talsmaður Tunisian Forum for Economic and Social Rights, samkvæmt Reuters:

„Þetta er rasísk nálgun, rétt eins og herferðirnar í Evrópu. Verið er að skapa ímyndaðan óvin til að afvegaleiða Túnisbúa frá grundvallarvandamálum sínum.“

Stórskuldsett Túnis er í langtíma efnahagskreppu. Í síðustu viku mótmæltu þúsundir verkalýðsfélaga um allt land versnandi fjárhagsvanda og handtöku háttsetts embættismanns.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila