Forstjóra OpenAl sagt upp störfum

Sam Altman forstjóra gervigreindarþróunarfyrirtækisins OpenAl hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu.

Það var í gærkvöld sem stjórn fyrirtækisins kallaði Altman á sinn fund og tilkynnti honum um brottreksturinn. Ástæðan fyrir brottrekstrinum er sú að Altman hefur ekki þótt nægilega hreinskilinn við stjórn fyrirtækisins og því hafi stjórnin ekki lengur trú á hæfni hans til þess að leiða fyrirtækið inn í framtíðina.

OpenAl er þekktast fyrir þróun ChatGPT spjallvélmennisins sem er alfarið byggt upp á gervigreind en fyrirtækið sem var örfyrirtæki þegar starfsemi þess hófst hefur orðið eitt af fremstu og þekktustu tækniþróunarfyrirtækjum heims á örfáum árum. Það þykir því mikill heiður að vera forstjóri þess og hefur Altman sem nú yfirgefur forstjórastólinn verið líkt við menn eins og Bill Gates, Mark Zuckerberg og Steve Jobs.

Altman segir á X síðu sinni að hann sé þakklátur fyrir þau ár sem hann starfaði fyrir OpenAl og borið gæfu til þess að kynnast því hæfileikaríka fólki sem þar starfar.

Nokkuð hefur verið hent gaman að uppsögn hans í netheimum og verið bent á að Altman kunni að hafa orðið fórnarlamb eigin vöruþróunar og nú verði líklega gervigreind fengin til þess að taka við starfi hans.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila