Gervigreind og tvímæli þekkingar

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Gervigreind getur, a.m.k. fræðilega, leitað í öllum heimsins gagnasöfnum, unnið með þann efnivið og skilað svörum við bæði áleitnum spurningum og léttvægum.

Drottning raunvísinda í meira en hundrað ár er eðlisfræði. En í fjörtíu ár eru engar framfarir í greininni, skrifar starfandi eðlisfræðingur, Peter Woit, og vitnar í annan, öllu þekktari, Sabine Hossenfelder, sem er sama sinnis.

Leikmaður gæti spurt: hvers vegna tekur ekki einhver eðlisfræðingur sig til og beitir gervigreind á framþróunarkreppu fræðigreinarinnar? Ef öll heimsins þekking er til reiðu, má ekki byggja á henni til að taka næsta skref?

Woit gefur til kynna að málið sé ekki svo einfalt. Það skortir hugmyndir, menn eru fastir í viðjum hefðar, hver étur upp eftir öðrum.

Ha? Er hugmynd ekki að láta sér detta eitthvað í hug sem mætti prófa, t.d. með gervigreind? En nei, það er ekki hægt. Nýir Einsteinar spryttu hraðar upp en auga á festi ef gutl með gervigreind dygði.

Einstein, þessi eini sanni, er höfundur tveggja afstæðiskenninga, þeirri sértæku og almennu. Í dag kallast þær þekking. Upphaflega aðeins innsæi, eða hugmynd. Einstein hugsaði efnisveruleikann upp á nýtt. Hugsunin varð ekki að þekkingu fyrr en eftir nokkurt strit. Einstein fékk hjálp við nauðsynlega útreikninga, sem síðan var hægt að prófa. Þá, en ekki fyrr, var hægt að tala um þekkingu.

Dæmið af Einstein segir að hugsun komi fyrst, síðan skilningur og loks þekking. Áður en Einstein lét hugann reika var til önnur þekking um eðli heimsins, kennd er við Newton. Í ævisögu hans og aflfræðinnar er eftirfarandi játning (s. 142 og 171):

Þyngdaraflið er okkur kunnugt vegna áhrifa þess. Við skiljum þyngdaraflið með stærðfræðiformúlu. Þar fyrir utan skiljum við ekki neitt. […] Tilgangslaust er að vísa í rök. Lögmál náttúrunnar eru ekki rökleg sannindi.  

Tvímæli þekkingar er fyrirvarinn, að við vitum ekki betur, annars vegar og hins vegar að þekking er sköpun, byrjar með innsæi. Newton og Einstein þekktu báðir fyrirvarann, að enn væri margt ósagt um eðli alheimsins. Gervigreind þekkir ekki fyrirvarann og hefur ekkert innsæi. Engin afurð gervigreindar yfirstígur mannlega þekkingu.

Þar fyrir utan er gervigreind til margs nýtileg. Ábyggilega er skemmtilegra og lærdómsríkara að hitta fyrir á spjallrás vélgreind fremur en mann. Til að spjalla.

Gleðilega páska.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila