Heimsmálin: Bandaríkin og stækkun ESB og NATO

NATO hefur stækkað um 15 lönd frá því að Sovétríkin féllu og ESB um 13 lönd. Þessu var ætlað að tryggja frið í álfunni. Kenningin er sú að (i) lýðræðisríki fari ekki í stríð hvort við annað, (ii) að lönd sem starfi saman í alþjóðastofnunum muni leysa sín ágreiningsmál á fjölþjóðlegum vettvangi og loks (iii) að ef lönd eru háð hvort öðru t.d. á sameinlegum markaði ESB, og jafnvel enn frekar með sameiginlegan gjaldmiðil, fari ekki í stríð hvert við annað. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hilmars Þórs Hilmarssonar prófessors við Háskólann á Akureyri í þættinum Heimsmálin en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar.

Hilmar segir að þegar lönd eins og Þýskaland og Frakkland, sem tókust á í tveimur heimsstyrjöldum, eru komin með sama gjaldmiðilinn sé nánast óhugsandi að þau fari í átök hvort við annað, því slík átök myndu eyðileggja hagkerfi beggja landanna.

Evrópa sjái um sig í hernaðar-og öryggismálum

Blikur eru á lofti með báðar þessar stofnanir, NATO og ESB og það getur haft afgerandi áhrif á efnahag og öryggi Evrópu. Sú fyrirætlun að Úkraína verði aðili að NATO, og tilkynnt var á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl 2008, leiddi til átaka við Rússland, stærsta stríðs sem geysað hefur í Evrópu frá seinni heimstyrjöldinni. Strax eftir Úkraínustríðinu líkur gætu Bandaríkin viljað láta Evrópu sjá meira um sig sjálfa í öryggismálum og vera til frekar til þautarvara (e. of last resort), en vera leiðandi í stríðsátökum Evrópu eins og í Úkraínu.

Yfirlýsing frá Donald Trump

Verði Donald Trump forseti Bandaríkjanna í janúar 2025 mun áhugi Bandaríkjanna á NATO væntanlega minnka enda hefur hann talað um NATO sem úrelta stofnun. Á nýlegum kosningafundi sagði Donald Trump að Bandaríkin myndu ekki verja Evrópuríki sem ekki greiddu til NATO eins og þeim bæri (miðað hefur verið við 2 prósent af vergri landsframleiðslu fari til varnarmála) og reyndar líka að hann myndi hvetja Rússland til að ráðast á þessi NATO ríki og gera við þau það sem þeir vildu. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO brást illa við og sagði að ummæli Trumps kunni að stofna lífi Bandaríkjamanna og íbúa ESB í hættu.

Rússland vildi inn í NATO

Í nýlegu sjónvarpsviðtali við Vladimir Putin forseta Rússlands kom fram að hann hefði á sínum tíma falast eftir aðild að NATO við Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta og að lokum fengið nei sem svar. Árið 2001 hafði Putin líka spurt George Robertson, þáverandi framkvæmdastjóra NATO hvenær hann ætlaði að bjóða Rússlandi að ganga í NATO.
Hefði Rússland orðið aðili að NATO væru landamæri NATO komin að Kína. Hefði það gerst væri heimsmyndin önnur en hún er í dag og stað Evrópu ólík því sem nú er.

Stríðið hefur afhjúpað veikleika NATO

Samstaða NATO og ESB ríkja vegna Úkraínustríðsins er að minnka og minni vilji er til að styðja landið fjárhagslega. Það verður erfiðara með tímanum að fá hernaðar og fjárhagsaðstoð frá Bandaríkjunum. Með öðrum orðum stríðið hefur afhjúpað veikleika innan NATO og deilur milli aðildarríkja. Nýkjörinn forsætisráðherra Póllands sagi nýlega að repúblikanar á Bandaríkjaþingi ættu að skammast sín fyrir að draga lappirnar í stuðningi sínum við Úkraínu.

Efnahagur Evrópu, Evrópusambandið og evrusvæðið

Fyrirætlanir um stækkun ESB halda áfram. Núverandi umsóknarríki (e. candidate countries) ESB eru Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Georgia, Moldóva, Svartfjallaland, Norður Makedónía, Serbía, Türkiye og Úkraína, eru öll frekar fátæk lönd mæld í vergri landsframleiðslu á mann og þurfa mikla aðstoð frá ESB t.d. við uppbyggingu innviða og stofnana.

Ef þessi lönd fá ESB aðild þurfa þau fyrr eða síðar að taka upp evruna. Sjö lönd sem gengið hafa í ESB og NATO eftir fall Sovétríkjanna og tekið upp evruna. Líkleg er að þau telji að aðild að myntbandalagi auki öryggi þeirra enn frekar. Finnland og Eystrasaltsríkin hafa tekið upp evru og eiga öll landamæri að Rússlandi.

Áfall fyrir hagkerfi Þýskalands

Stærsta hagkerfi ESB, Þýskaland, sem var í miklum viðskiptum við Rússland t.d. í kaupum gasi áður en Úkraínustríðið hófst, hefur orðið fyrir miklu áfalli efnahagslega. Maastricht samkomulagið gerir ráð fyrr að á evrusvæðinu megi halli á ríkissjóði ekki vera umfram 3% af vergri landsframleiðslu og opinberar skuldir ekki hærri en 60% af vergri landsframleiðslu. Þessar reglur voru illa rökstuddar frá hagfræðilegu sjónarmiði en þær voru kannski settar af öðrum ástæðum. Þær áttu meðal annars að koma í veg fyrir að fátækari ríki á evrusvæðinu gætu lagt kostnað á ríkari lönd í myntbandalaginu. Koma í veg fyrir að „óábyrg“ stjórn ríkisfjármála og skuldasöfnun í einu landi bitnaði á öðrum löndum á evrusvæðinu.

Þrátt fyrir reglur ESB um hámarks skuldahlutfall eru nú 12 lönd af 20 komin frammúr þessu hámarki, sjá Mynd 2. Það vekur athygli hversu illa stærstu hagkerfin á evrusvæðinu standa, sérstaklega Ítalía, en líka Frakkland. Þýskaland stendur heldur ekki vel og er ekki lengur aflögufært. Formúlan um hámarks skuldir evruríkja er í raun löngu fokin út í verður og vind. Meðal hagvöxtur á evrusvæðinu frá 1999 til 2023 var ekki nema 1,4%.

Þessi frétt er hluti af ítarlegri fréttaskýringu sem nálgast má í heild ásamt skýringarmyndum með því að smella hér.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila