Heimsmálin: Hætta á að stærstu ríkin við Persaflóa blandist með beinum hætti í stríðið á Gaza

Hætta er á því eftir því sem átökin stigmagnast fyrir botni Miðjaðarhafs að stærstu ríkin við Persaflóa, Íran og Sádi Arabía blandist með beinum hætti inn í stríðið á Gaza. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hilmars Þórs Hilmarssonar prófessors við Háskólann á Akureyri í Heimsmálunum í viðtali við Pétur Gunnlaugsson.

Hilmar segir að það veki athygli að bæði Íran og Sádi Arabía séu gengin í BRICS með Kínverjum og
Rússum, sem hljóti að mati Hilmars að valda áhyggjum í Washington, D.C.

Útbreiðsla stríðsins hækkar verð á olíu og gasi

Hann telur þó líklegra að Hezbollah sem er staðsett í Líbanon og stutt af Íran skerist í leikinn að meiri þunga en þegar er orðið. Það myndi hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Líbanon sem stendur illa fyrir. Fyrir utan eyðileggingu og mannfall er líklegt að útbreiðsla stríðsins myndi meðal annars leiða til hækkandi verðs á olíu og gasi.

Árásir Húta í Jemen trufla skipaferðir

Þá ráðist Hútar í Jemen sem styðja Hamas á skip sem fara um Rauðahafið og  tengjast Ísrael eða bandamönnum Ísrael. Bandaríkjamenn og Bretar hafa svarað með árásum á Húta í Jemen. Þetta tefur siglingar um Rauðahafið sem til lengri tíma getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir allt heimshagkerfið. Sum skipafélög fara þessa leið ekki lengur. Annaðhvort þurfa siglingafélög sem fara um Rauðahafið að greiða háar tryggingar eða fara fyrir Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku sem er mun lengri siglingaleið og þar með dýrari.

India-Middle East-Europe Economic Corridor

Áður en átökin á Gaza hófust stóð til að koma á fót svokallaðri India-Middle East-Europe Economic Corridor sem fer sjóleiðina frá Indlandi og landleiðina í gegnum Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Sádi-Arabíu, Jórdaníu, Ísrael og svo sjóleiðina til Evrópu. Þetta verkefni, sem rætt var á G20 fundinum á Indlandi nú í September 2023, var stutt af Bandaríkjunum og Evrópusambandinu og er mikilvægt fyrir Ísrael og liður í að koma á eðlilegum samskiptum við lykil Arabaríki eins og Sádi-Arabíu.

Tveggja ríkja lausn ekki í sjónmáli

Ekki hefur hinsvegar tekist að koma á tveggja ríkja lausn þannig að Palestína verði sjálfstætt ríki við hlið á Ísrael. Upp úr sauð svo með árás Hamas á Ísrael 7. október sl. og þeim hörmungum sem fylgdu á Gaza svæðinu í kjölfarið. Framtíð India-Middle East-Europe Economic Corridor er nú í óvissu og Sádi-Arabía hefur nú sett skilyrði að málefni Palestínumanna verði leyst áður en tekin varða upp eðlileg samskipti við Ísrael.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan


Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila