Heimsmálin: Ljóst að Ísraelar ætla sér að ganga milli bols og höfuðs Hamas

Það er nokkuð ljóst að Ísraelar ætla sér að klára núna að ganga milli bols og höfuðs á Hamas og þurrka samtökin út og núna í vopnahléinu nýtir Ísraelsher tímann til þess að skipuleggja sig í þeim aðgerðum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hauks Haukssonar í þættinum Heimsmálin en hann var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar.

Haukur segir að hann búist við því að það séu einungis nokkrar klukkustundir þangað til að Ísraelsher leggi aftur til atlögu við Hamas. Nú sé það hins vegar spurningin hversu mikið afl Hamas hafi til þess að berjast við her Ísraela. Hann telur að aðgerðir Ísrael munu þó draga dilk á eftir sér til framtíðar því mikið af börnum hafi því miður fallið í aðgerðunum og það að kynslóð vaxi úr grasi sem hefur fengið að upplifa slíkar hörmungar sem yfir svæðið hafa dunið muni valda vaxandi hatri gagnvart Ísraelum.

Haukur segir að það væri mun skynsamari leið að Ísraelar myndu reyna að koma á friðarviðræður gagnvart Palestínumönnum. Það sem nú á sér stað sé ekki gott veganesti til framtíðar ef skapa á frið á svæðinu í framtíðinni heldur mun ófriðurinn einungis halda áfram.

Diplómatar í Katar náðu fram vopnahléi

Pétur bendir á að það sé merkileg staðreynd að diplómatar í Katar hafi tekist að koma á vopnahléi á þrátt fyrir að vera hliðhollir Hamas og jafnvel Íran sem ætti að vera í raun erfiðara í þessari deilu en deilunni milli Rússa og Úkraínumanna. það sýni að diplómatían í þeirri deilu hafi brugðist. og sýni jafnframt að menn ættu að ganga í að semja því það sé vel hægt enda ljóst að þegar styrjöldunum lýkur verði samið hvort sem er.

Haukur tekur undir það og segir ljóst að samið verði sama hvernig fari og sama hversu lengi stríðin standi yfir.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila