Heimsmálin: Úkraína að tapa stríðinu – hætta á stríði milli stórvaldanna

Það er ljóst að það er mjög á brattan að sækja hjá Úkraínu í stríðinu við Rússa og eins og staðan er nú lítur út fyrir að Úkraína sé að tapa stríðinu. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hilmars Þórs Hilmarssonar prófessors við Háskólann á Akureyri en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar í þættinum Heimsmálin.

Að mati Hilmars er staðan á vígvellinum í Úkraínu slæm og rússneski herinn í sókn. Rússneski herinn ræður nú yfir um 20 prósent af Úkraínu og líklegt er að yfirráðasvæði vaxi á næstu mánuðum og gæti jafnvel endað í um 40 prósent þar sem rússneski herinn tekur jafnvel alla strandlengju Úkraínu að Svarta hafinu, borgina Kharkiv og fleiri svæði í Austur og Suður hluta Úkraínu.

Hætta á stórveldastríði

Úkraínustríðið er ekki enn stórveldastríð, það er beint milli Rússlands og Bandaríkjanna, en með áframhaldandi stigmögnun gæti það orðið það að mati Hilmars. Emmanuel Macron forseti Frakklands hefur talað um að senda NATO hermenn inní Úkraínu sem í raun þýddi að NATO, og þá um leið Bandaríkin, væru komin í beint stríð við Rússland. Frakkland er eitt af aðildarríkjum NATO og raunar eitt af stofnríkjunum frá 1949. Eystrasaltsríkin, til dæmis, forseti Eistlands virðast líka vera fylgjandi beinni aðild NATO að stríðinu með því að senda hermenn, ekki eingöngu vopn eins og verið hefur. Forseti Lettlands hefur talað um að taka upp herskyldu í öllum NATO ríkjum. Vilja íslensk stjórnvöld fara þá leið?

Evrópa virðist vera leiðtogalaus

Óljóst er hvað Macron gengur til með yfirlýsingum sínum. Hann hafði fyrir innrás Rússa 24. febrúar 2022 talað um að NATO væri heiladautt og að Evrópa þyrfti sjálfstæðan her. Nú talar hann um beina aðild NATO af Úkraínustríðinu. Að mati Hilmars er hætta á að þessi mál fari úr böndunum og að enn frekari stigmögnun eigi sér stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Macron er farinn að láta taka myndir af sér við boxæfingar væntanlega til að sýna styrk sinn sem leiðtogi Frakklands, kannski allrar Evrópu. Olaf Scholz kanslari Þýskalands kemur fyrir sjónir sem veikur leiðtogi og í raun virðist Evrópa að mestu leiðtogalaus sem kemur sér illa þegar líka er mikil óvissa í forsetakosningum í Bandaríkjunum.

Fréttin er hluti af ítarlegri fréttaskýringu sem lesa má í heild með því að smella hér

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila