Heimsmálin: Úkraínuher farinn að skjóta á kjarnorkuinnviði í Rússlandi

Kjarnorkuinnviðum í Rússlandi er ógnað. Úkraínuher er farinn að skjóta á kjarnorkuinnviði þar sem þau eru staðsett langt inni í Rússlandi eða í allt að 1600 kílómetra fjarlægð. Tímaspursmál er hvenær vopn Úkraínumanna verði nógu öflug til að sprengja upp kjarnorkusílóin. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hauks Haukssonar í Heimsmálunum í dag en Haukur var þar gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Haukur segir að hingað til hafi ekki verið gengið svo langt í stríðinu að skotið hafi verið á kjarnorkuinnviði en til kjarorkuinnviða teljist kjarnorkuver og sérstök síló sem staðsett eru langt neðanjarðar og hafa að geyma kjarnorkusprengjur. Haukur segir að um sé að ræða dróna sem skjóti á þessa kjarnorkuinnviði. Í raun sé það aðeins tímaspursmál hvenær vopnin sem Úkraínuher beri séu nægilega öflug til þess að sprengja upp kjarnorkusílóin sem eru langt niðri í jörðu.

Aðgerðum stjórnað frá Bretlandi og Bandaríkjunum

Haukur segir ljóst að aðgerðum sem þessum sé stjórnað utan frá, það er af aðilum sem ekki séu staðsettir í Úkraínu og þar komi meðal annars Bretar og Bandaríkjamenn við sögu. Aðgerðum Úkraínuhers sé stjórnað frá sérvöldum stöðum og þar með orðnir lögleg skotmörk að mati Rússa.

Hætta á kjarnorkuslysi

Haukur segir að það sem sé kannski varasamast sé að í ljósi þess að Úkraínumenn séu farnir að skjóta á staði langt inni í Rússlandi geti farið svo að flaugar þeirra gætu hæft sérstaka trukka sem flytja kjarnorkusprengjur á milli staða og eru mikið á ferðinni núna þar sem Rússar hafa að undanförnu verið með hernaðaræfingar. Haukur segir málið mjög alvarlegt því sprengjurnar sem trukkarnir ferja séu fullbúnar og tilbúnar til notkunar og því gæti orðið stórslys ef flaugar myndu hæfa þessar sprengjur.

Rússar munu svara árásum

Hann segir að ástæður þess að verið sé að ferja sprengjurnar á milli staða séu þær að Rússar séu einfaldlega að sýna að árásum á þá verði svarað ef fram heldur sem horfir.

Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila