Heimsstyrjöld handan við hornið

Haukur Hauksson fréttamaður í Rússlandi

Sú ákvörðun að meðal annara Bandaríkin og Þýskaland hafi ákveðið að senda öfluga skriðdreka til Úkraínu er sannarlega ekki ákvörðun sem mun leiða til lausna á stríðinu í Úkraínu og tala Rússar um að þessi lönd séu í raun komin í beint stríð við þá. Það þýði aðeins eitt, að heimsstyröld sé handan við hornið eins og staðan sé nú. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hauks Haukssonar fréttamanns í Moskvu í þættinum Heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi í dag en hann var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Haukur segir að það sé engan friðartón að heyra, hvorki frá Úkraínu né Rússlandi og því sé ástandið afar eldfimt, sérstaklega eftir að fregnir bárust af gjafaskriðdrekum Vesturlanda.

„staðan núna í stríðinu og síðustu klukkustundum er sú að þetta er að snúast upp í heimsstyrjöld, eina leiðin út úr þessari stöðu er að menn setjist að samningaborðinu en ég get sagt það bara beint út að Rússar eru ekki komnir til Úkraínu til þess að tapa þessu stríði og ég get fullyrt nokkurn vegin eftir samtölum að það kemur ekki til greina hjá þeim að fara til baka“segir Haukur.

Rússneskur stjórnmálafræðingur vill að Ísland verði sprengt í loft upp Bretum til viðvörunar

Eðlilega veltir fólk því fyrir sér hver staða Íslands sé þegar kemur að stríðsátökum enda sé Ísland herlaust þó það sé innan NATO. Ísland hefur hins vegar verið mjög áberandi í umræðunni á alþjóðavettvangi í tengslum við stríðið, nú síðast í gær þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með Olaf Scholz kanslara Þýskalands þar sem hún ítrekaði meðal annars stuðning sinn við umsókn Svía og Finna að aðild NATO og setti út á andstöðu Tyrkja við umsóknina.

Aðspurður um hvort hætta sé á að Rússar ráðist á Ísland komi til heimstyrjaldar segir Haukur að stjórnmálafræðingurinn Yevgeny satanovsky hafi látið þau orð falla í vinsælum spjallþætti í rússneska ríkissjónvarpinu að Rússar ættu að varpa sprengjum á Ísland Bretum til viðvörunar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem var gestur síðar í síðdegisútvarpinu staðfesti að hann hefði einnig heyrt af þessum ummælum.

Sem fyrr segir hefur aukin harka færst í samskipti ríkjanna og segir Haukur að Rússar standi fastir fyrir og óttist ekki þó Bandaríkin og Þýskaland ætli að senda nokkra tugi skriðdreka til Úkraínu. Hann segir að þeir skriðdrekar hafi lítið að segja í skriðdrekaflota Rússa sem telur um 22.000 skriðdreka. Her Rússa sé einfaldlega svo öflugur að þeir óttist ekki neitt.

Aðspurður um hvort það sé rétt að mótmæli séu í Rússlandi vegna stríðsins segir Haukur að það hafi ekki verið mótmæli í marga mánuði en komi til þeirra mæti lögreglan og fjarlægi mótmælendur, setji þá í rútu og sleppi þeim skömmu síðar. Þá séu heldur ekki mótmæli á netinu af hálfu rússneskra borgara en hafa verði í huga að stunduð sé ritskoðun í Rússlandi segir Haukur.

„en hvað andrúmsloftið varðar þá er það orðið miklu harðara hjá almenningi og eflist eftir því sem fólk finnur meira fyrir andstöðunni gagnvart Rússum“ segir Haukur.

Í lok þáttar ræddu Arnþrúður og Pétur um stöðuna og benti Arnþrúður á að með skriðdrekasendingum ætli Vesturlönd að koma því til leiðar að Úkraína endurheimti Krímsskagann en Pétur segir að þá muni Rússar eflaust líta svo á að það sé árás á þeirra svæði og þar með séu Vesturlönd komin í stríð við Rússland. Þá segir Pétur að staða Rússa sé orðin það slæm í samskiptum við aðrar þjóðir að Rússar séu farnir að líta svo á að það séu allir á móti þeim. Arnþrúður segir að sú staðreynd geri stöðuna hættulegri því þá geti Rússar metið það sem svo að þeir hafi hvort eð er engu að tapa.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila