
Ítalir eru á móti notkun skordýra í mat og vilja ekki að slíkt tengist ítalskri matargerð. Stjórnvöld banna því að nota megi skordýramjöl í vörur eins og pítsu og pasta.
Eftir að ESB samþykkti í janúar að nota tvær skordýrategundir til viðbótar (húsaengisprettu og lirfutegund) sem matvæli, hafa matvæli eins og skordýramjöl orðið algengari á markaðnum.
Vilja ekki vera bendlaðir við pöddumjöl
Á Ítalíu urðu hörð viðbrögð við þessu fyrr í ár, þar sem matvælaframleiðendur, veitingahúsaeigendur og viðskiptavinir voru á móti hugmyndum um að nota skordýramjöl í t.d. pasta eða pítsu.
Nú hefur ríkisstjórn Ítalíu því ákveðið að hætta notkun skordýramjöls og annarra matvæla sem innihalda skordýr, segir The Times. Þetta er vegna þess að Ítalir vilja ekki, að skordýr tengist ítalskri matargerð. Landbúnaðarráðherra ítalíu, Francesco Lollobrigida, segir:
„Það er mikilvægt að þessum tegundum af hveiti sé ekki ruglað saman við matvæli sem framleidd eru á Ítalíu.“
Flestir vilja ekki borða pöddur
Heimilt verður að nota matvæli sem innihalda skordýr en þau verða þá að vera merkt með stórum stöfum á umbúðunum og vera aðskilin frá öðrum matvælum. Lollobrigida segir:
„Allir sem vilja borða þessar vörur geta gert það, en þeir sem vilja þær ekki og ég get ímyndað mér, að það séu flestir Ítalir, munu því geta valið.“
Heilbrigðisráðherra ítalíu, Orazio Schillaci, bætir því við, að Ítalir muni alfarið banna notkun skordýramjöls í klassískum ítölskum vörum eins og pítsu eða pasta.
Skordýr í Evrópusambandinu
Í dag eru fjórar skordýrategundir samþykktar til notkunar í matvæli eins og brauð, pasta, súpu, fæðubótarefni og fleira. Ef matvæli innihalda skordýr þarf að merkja það í innihaldslýsingu. Í Svíþjóð þarf að prenta bæði sænska og latínska nafnið undir innihaldsefni. Hins vegar er ekki skilyrði, að það verði sýnt framan á umbúðunum.