Jón Steinar: Þjóðum beri siðferðileg skylda til að reyna að stilla til friðar á Gaza

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari skrifar:

Mikið er um þessar mundir fjallað hér á landi um „stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs“. Menn ættu að reyna leggja niður fyrir sér sína eigin afstöðu til einstakra þátta í þeim atburðum sem þarna hafa orðið að undanförnu og standa nú yfir.

Mín afstaða er nokkurn veginn svona:

Ég er andvígur öllum morðárásum sem þarna eru réttlættar með því að tilgangurinn helgi meðalið.

Þannig fordæmi ég árás Hamas-liða á Ísrael 9. október og einnig „gagnárás“ Ísraelsmanna þar sem saklausum borgurum er slátrað með skelfilegum hætti.

Ég tel að öðrum þjóðum beri siðferðileg skylda til að reyna að stilla til friðar og veita fórnarlömbum þessara manndrápa alla þá hjálp sem unnt er án þess að gera sig að þátttakendum í vopnuðum átökum þarna.

Sumir telja sér trú um að hernaður Ísraelsmanna réttlætist af þeirri „trúarlegu“ (?) afstöðu múhameðstrúarmanna að vanvirða konur og samkynhneigða. Þó að efnislega megi fallast á afstöðu kristinna manna um þetta, getur hún aldrei réttlætt dráp á saklausu fólki á þann veg sem raun ber vitni. Þarna eins og annars staðar í heiminum á að gilda raunverulegt jafnrétti manna.

Ég tel að öllum aðilum þessara morða beri skylda til að láta af stríðsátökum til að „leysa“ ágreiningsefni sín. Eina boðlega leiðin til að leysa úr deilum manna felst í friðsamlegum samningum um það sem skilur deiluaðila að. Morðárásir fela ekki í sér lausnir á ágreiningi manna. Þeir ættu að skilja að slikar aðfarir hafa aldrei leyst ágreining á mannsæmandi hátt. Lykill að friði felst í því að stríðandi aðilar læri að skilja hver annan og afstöðu til lifnaðarhátta sem reynast vera frábrugðnir þeirra eigin, með þeim fyrirvara að mannréttindi séu virt.

Það eru ekki auðveld verkefni sem þessi afstaða byggist á en okkur ber öllum að reyna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila