Kína varar Bandaríkin við óhjákvæmilegum „árekstrum og átökum“ ef Bandaríkin athugi ekki sinn gang

Utanríkisráðherra Kína, Qin Gang. Mynd: Présidence de la République du Bénin/CC 2.0

Á árlegu flokksþingi kommúnistaflokksins lýsti Xi Jinping, forseti Kína, því yfir að Bandaríkin og bandamenn þeirra væru að „umkringja og kúga Kína“ og Qin Gang utanríkisráðherra landsins varaði við væntanlegum „árekstrum og átökum“ ef Bandaríkin breyti ekki um stjórnmálastefnu.

Xi Jinping sagði á flokksþinginu um ástandið í heiminum:

„Vestræn ríki, með Bandaríkin í fararbroddi, taka þátt í að hemja, umkringja og kúga Kína, sem hefur leitt til áður óþekktra áskorana fyrir þróun lands okkar.“

Engin „handrið“ geta stöðvað útafakstur Bandaríkjanna og umskipti yfir í átök

Nýskipaður utanríkisráðherra Kína, Qin Gang, gengur enn lengra og segir, að ef Washington breyti ekki verulega um viðhorf sín og stefnu, þá sé stigmögnun óumflýjanleg.

„Reyndar er svokölluð samkeppni Bandaríkjanna ein allsherjar takmörkun og kúgun… Bandaríkin vilja eflaust setja upp „handrið“ í samskiptum Kína og Bandaríkjanna og forðast árekstra. Reyndar vilja þeir ekki að Kína bregðist við í orði eða verki, þegar verið er að rægja eða ráðast á þau. Þetta er einfaldlega ómögulegt. Ef Bandaríkin hægja ekki á sér og halda áfram á rangri braut þá munu engin handrið geta stöðvað útafaksturinn og umskipti yfir í árekstra og átök.“

Brjóta alþjóðarétt og venjur

Qin gagnrýnir einnig ákvörðun Bandaríkjanna um að skjóta niður grunaðan kínverskan njósnaloftbelg í síðasta mánuði og heldur því fram, að loftbelgurinn hafi farið yfir á bandarískt yfirráðasvæði vegna mistaka.

„Bandaríkin brutu gegn anda alþjóðaréttar og alþjóðavenju með því að gefa sér forsendur um sekt, sýna ofurviðbrögð, misnota vald og nýta málið til að skapa diplómatíska kreppu, sem hægt hefði verið að forðast.“

Utanríkisráðherrann gagnrýndi einnig þá ákvörðun Bandaríkjanna að aðstoða Taívan með hergögnum og telur, að Bandaríkjamenn sýni fullveldi og landhelgi Kína „vanvirðingu.“ „Bandaríkin bera óhrekjanlega ábyrgð á því að Taívan-málið hafi komið upp,“ fullyrðir hann.

Úkraínustríðið notað í heimspólitískum ásetningi

Í ræðu Qin fær hin víðtæka þátttaka Bandaríkjanna í stríðinu í Úkraínu einnig alvarlega gagnrýni:

„Það er miður að líkt og ósýnileg hönd hafi grafið undan viðleitni til að sannfæra og stuðla að viðræðum, þá hefur átökunum verið ýtt út í stigmögnun og Úkraínukreppan notuð til að ná ákveðnum heimspólitískum ásetningi.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila