Kristinn: Varar við Carbfix blekkingum í nafni loftslagsmála

Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Kristinn Sigurjónsson rafmagns- og efnaverkfræðing og fyrrverandi háskólakennara í Síðdegisútvarpinu um fyrirhugaða dælingu koldíoxíðs (CO₂) í jarðlög á Íslandi. Kristinn sagði almenning hafa verið blekktan til að trúa því að slík verkefni væru nauðsynleg til að sporna við hlýnun jarðar en í raun væri um pólitískan áróður og tekjuöflun að ræða fremur en raunverulegar loftslagsaðgerðir. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Hann gagnrýndi að kolefnisgjöld væru kynnt sem loftslagsúrræði þótt þau væru fyrst og fremst nýr skattstofn fyrir ríkissjóð. Að hans mati væri koldíoxíð náttúrulegt efni sem ekki hefði verið sýnt fram á að valdi hlýnun jarðar með þeim hætti sem haldið er fram í opinberri umræðu.

Vísindalegar forsendur veikburða

Kristinn sagði að alþjóðlegar skýrslur væru oftar notaðar sem pólitískt tæki og sem traust vísindaleg rök og að háskólasamfélagið væri of háð opinberu fjármagni til að setja fram óháða gagnrýni. Hann kvaðst hafa reynt að fá svör með því að spyrja gervigreind um hvaða gögn sönnuðu tengsl hlýnunar jarðar við aukið magn koldíoxíðs en ekki fengið fullnægjandi svör. Gervigreindin vísaði til skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum upp á 4000 blaðsíður en þegar Kristinn fór að spyrja hvar í skýrslunni þetta kæmi fram kom í ljós að ekki var að finna neitt um þetta í skýrslunni. Kristinn sagði að um væri að ræða áróður í grænum búningi sem nýttist stjórnvöldum til að skattleggja atvinnulíf og almenning.

Hætta á langvarandi áhrifum á vatn verði slys

Kristinn sagði að þótt koldíoxíð væri ekki eitrað við venjulegar aðstæður gæti slys þó borið að höndum við geymslu eða dælingu gassins. Hann benti á að efni á borð við brennisteinsvetni gætu fylgt með og borist niður í grunnvatn án þess að uppgötvast strax.

Hann varaði við því að slys af þessu tagi gætu haft langvarandi eða jafnvel varanleg áhrif á vatnsból og tekið áratugi eða aldir að lagast. Að hans mati væri ekki forsvaranlegt að taka slíka áhættu á verðmætum vatnsverndarsvæðum þar sem tjón á hreinu vatni gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu, útflutning og orðspor Íslands sem hreins vatnslands.

Vill nýta koldíoxíð í gróðurhúsum

Í stað þess að dæla koldíoxíði niður í jarðlög lagði Kristinn til að nýta það í gróðurhúsarækt þar sem gasið er plöntum til næringar og nýtist þegar í atvinnustarfsemi innanlands. Hann sagði það hagkvæmara og skynsamlegra en að verja miklum fjármunum, vatni og rafmagni í verkefni sem hann telur byggt á blekkingu.

Hlusta má á ítarlega umfjöllun í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila