Kvikmyndin Empire (Viften) hlaut Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023

Kvikmyndin Empire sem ber heitið Viften á frummálinu hlaut í gærkvöld Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2023.

Fram kemur í tilkynningu að dómnefndin hafi valið Empire úr hópi norrænna kvikmynda af miklum gæðum.

Í umsögn Bíó Paradísar um myndina segir að í myndinni komi saman stórgott handrit, áberandi góð sjónræn frásögn og hljóðheimur sem skili sér í magnaðri kvikmyndaupplifun. Á heildina litið hafi höfundarnir fært áhorfendum fagran, sætan og litríkan glaðning sem einnig geymir biturt eitur og stillta bræði.

„Það ber vitni um kjark, áræðni og metnað af hálfu kvikmyndagerðarkvennanna að segja þessa
alvarlegu og sársaukafullu sögu á svo persónulegan og gáskafullan hátt, jafnvel kíminn og
furðu fallegan á köflum. Höfundarnir skoða liðna tíð og það er ekki fögur sjón. Í Empire segir
frá afmörkuðum hluta úr danskri sögu, en jafnframt ættu áhorfendur hvaðanæva úr heiminum
að eiga auðvelt með að tengja frásögnina við vandamál úr samtímanum.“ segir í umsögninni.

Þar segir jafnframt:

„Hér er á ferð sannfærandi og einkar margslungin túlkun á þrælauppreisn gegn dönskum
nýlenduherrum. Persónurnar reyna að finna sér stað innan stigveldis kynþátta og stétta.
Brigðular ráðagerðir og hverfult trygglyndi gera söguna ófyrirsjáanlega og grípandi.
Handritshöfundurinn Anna Neye, sem leikur einnig aðalhlutverkið, hefur skapað margþætta
sögu sem ekki hefur heyrst fyrr, sögu þar sem allar persónurnar hafa einhverja galla og margar
þeirra eiga í innri siðferðisbaráttu.“

Þá áttu Íslendingar einnig sinn fulltrúa meðal verðlaunahafa en Rán Flygenring hlaut barnabókaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bók sína Eldgos. Rán sagði að það hafi komið henni nokkuð á óvart að hljóta verðlaunin og hvað verðlaunin þýddu fyrir feril hennar yrði að koma í ljós með tíð og tíma.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila