Marine Le Pen hættir sem flokksformaður – Jordan Bardella tekur við

Marine Le Pen t.v. lætur af störfum sem flokksformaður Þjóðarbandalagsins og við tekur Jordan Bardella t.h. Marine Le Pen mun starfa áfram sem þingmaður fram að næstu forsetakosningum og fari hún í framboð til forseta Frakklands verður það í fjórða sinn (mynd skjáskot Parisien).

Er ekki að fara í frí

Marine Le Pen hættir sem flokksformaður franska Þjóðarbandalagsins. Við tekur 27 ára gamli ESB-þingmaðurinn Jordan Bardella. Marine Le Pen sagði við kjör hins nýja leiðtoga samkvæmt Le Parisien:

„Það er enn mikið að gera, ég er meðvituð um það. Ég er ekki að hætta sem leiðtogi til að fara í frí, ég er reiðubúnari en nokkru sinni fyrr til að berjast. Ég mun vera þar sem mín er mest þörf fyrir landið og þjóðarhagsmuni, fyrir framtíðina, fyrir Frakkland.“

Þjóðarbandalagið varð næst stærsti flokkurinn í Frakklandi með 89 þingsæti í síðustu þingkosningum. Þetta voru bestu þingkosningar flokksins til þessa. Þótt Marine Le Pen hætti störfum sem flokksformaður, þá starfar hún áfram og getur því boðið sig fram í komandi forsetakosningum – sem yrðu hennar fjórðu. Le Pen segist einbeita sér að þingstörfum fram að næstu forsetakosningum.

ESB-þingmaðurinn Jordan Bardella 27 ára gamall tekur við sem flokksformaður. Bardella fékk 85 % atkvæða og vann yfir keppinaut sínum Louis Alio sem fékk 15% atkvæða. Í þakkarræðu sinni sagði Jordan Bardella að Þjóðarbandalagið myndi taka við stjórn landsins eftir Emmanuel Macron.

Marine Le Pen var flokksleiðtogi Þjóðfylkingarinnar síðan 2011. Flokkurinn var stofnaður árið 1972 af föður hennar Jean-Marie Le Pen. Þjóðfylkingin skipti um nafn fyrir nokkru og heitir núna Þjóðarbandalagið.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila