Opna á að nota herinn í baráttunni gegn glæpahópunum í Svíþjóð

Samstaða er að myndast í sænskum stjórnmálum um að nota beri herinn í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Leiðtogar þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna í Svíþjóð eru sammála hugmyndinni, sem Svíþjóðardemókratar hafa mælt með árum saman. Frá vinstri á mynd: Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, í miðju Magdalena Andersson formaður Sósíaldemókrata og til hægri Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar og formaður Móderata. (skjáskot X).

Svíþjóðardemókratar hafa lengi lagt til að hernum verði beitt í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi, þar sem lögreglan ræður ekki við glæpahópana. Núna fá Svíþjóðardemókratar óvæntan stuðning bæði frá jafnaðarmönnum og móderötum en forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, sagði í ræðu til sænsku þjóðarinnar í gær að hann myndi hitta yfirhershöfðingja ríkisins ásamt lögreglustjóra til að ræða, til hvaða ráða væri hægt að taka til að stöðva allt ofbeldið.

Skot- og sprengjuárásir í vikunni með þremur látnum, þar af saklausri konu sem svaf heima hjá sér, sýnir hversu fjarri yfirvöld eru frá þeirri yfirlýsingu stjórnvalda að „brjóta glæpahópana á bak aftur.“ Lögreglan er einfaldlega langt frá því að vera undirbúin fyrir skipulagða glæpastarfsemi af þessu tagi. Samtímis hefur Svíþjóð her sem að mestu er óvirkur, fyrir utan að ferðast stöku sinnum til verkefna í fjarlægum löndum. Svíþjóðardemókratar hafa ítrekað lagt til að hermenn verði fengnir til að styðja lögregluna í baráttuna við glæpahópana.

Kratar skipta um skoðun

Til þess að nota megi herinn þarf breytingu á lögum. Bannað hefur verið að nota herinn á friðartímum eftir atburðinn í Ådalen árið 1931, þegar verkamenn í verkfalli voru skotnir til bana af hermönnum. Atburðurinn er talinn hafa ráðið úrslitum um, að jafnaðarmenn sigruðu í kosningunum árið eftir og héldu völdum eftir það samfleytt í 44 ár. En núna eftir næstum hundrað ár, hefur jafnaðarmannaflokkurinn, kratar, skipt um skoðun og mæla fyrir því að hernum verði beitt gegn grófum glæpamönnum og ofbeldisfullum innflytjendum á „viðkvæmum svæðum“ landsins. Magdalena Andersson tilkynnti um viðsnúning sósíaldemókrata og er sammála Svíþjóðardemókrötum um að nota eigi herinn gegn glæpahópunum. Vill hún fá hraða lagalega breytingu og að herinn verði gefnar frjálsar hendur til að berjast gegn ofbeldi glæpagengja við hlið lögreglunnar. Hún skorar nú á ríkisstjórnarflokkana að ganga í málið.

Ríkisstjórnin tvístígandi í byrjun en forsætisráðherrann ræðir við yfirhershöfðingjann í dag

Þegar Svíþjóðardemókratar settu tillöguna aftur á borðið nýlega, að nota herinn gegn glæpahópunum, þá hafnaði varnamálaráðherrann Pål Jonson þeirri málaleitan. Núna tekur hins vegar forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, af skarið í ávarpi til þjóðarinnar í gær. Hann sagði í ræðunni að herinn gæti aðstoðað í baráttunni við glæpahópana:

„Sænska löggjöfin er ekki formuð fyrir stríð glæpahópa og barnahermenn en við munum breyta því núna. Verið er að skoða alla möguleika og ég vonast til þess að allir stjórnmálaflokkar á þingi geti safnast um nauðsynlegar, öflugar aðgerðir. Við munum setja inn allan þann kraft sem þörf er á.“

Yfirhershöfðinginn vildi ekki segja neitt um yfirlýsingu forsætisráðherrans fyrir fundinn með honum en sagði áður í viðtali við DN:

„Ef við getu aðstoðað lögregluna þegar innra öryggið skelfur, þá munum við gera allt sem í okkar valdi er mögulegt.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila