Orbán: Ekkert liggur á að samþykkja umsókn Svíþjóðar að Nató

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, segir ekkert liggja á að samþykkja Nató-umsókn Svíþjóðar, þar sem Svíþjóð sé engin hætta búin.(mynd European People’s Party).

„Ekkert ógnar öryggi Svíþjóðar. Þess vegna liggur ekkert á að staðfesta sænsku NATO-umsóknina.“ Það sagði Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, í ræðu á ungverska þinginu í gær. Orbán krefst þess, að Svíþjóð sýni Ungverjalandi virðingu.

Ekkert ógnar öryggi Svíþjóðar

Tyrkland og Ungverjaland hafa enn ekki samþykkt Nató-umsókn Svía. Og það getur tekið langan tíma áður en það gerist. Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, útskýrði fyrir þingmönnum landsins á mánudag að það „lægi ekkert á“ að staðfesta Nató-umsókn Svíþjóðar, þar sem „ekkert ógnaði öryggi Svíþjóðar.“

En ekki nóg með það. Nokkrir háttsettir embættismenn í Ungverjalandi hafa sagt, að óvíst sé að málið komist á dagskrá þingsins í haust. Mate Kocsis, leiðtogi stjórnarflokks Fidesz, telur „litla möguleika“ á því að ungverska þingið greiði atkvæði um Nató-umsókn Svíþjóðar á þessu ári, að sögn AP. Orbán sagði á þingi samkvæmt Reuters:

„Ég velti því fyrir mér, hvort það sé eitthvað brýnt í gangi sem myndi neyða okkur til að fullgilda Nató-umsókn Svíþjóðar. Ég sé engar slíkar aðstæður.“

Krafist þess að Svíar sýni lágmarkskurteisi

Aðdragandinn að hægagangi Ungverjalands er langvarandi áróður sænskra stjórnmálamanna gegn Ungverjalandi. Rétttrúnaðarelítan í Svíþjóð er að reyna að þvinga Ungverjaland til að láta undan alþjóðahyggjunni en Ungverjar eru ekki á þeim buxunum. Samkvæmt Bloomberg krefst Orbán þess, að Svíþjóð sýni Ungverjalandi lágmarkskurteisi áður en hægt verði að samþykkja Nató-umsókn Svíþjóðar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila