Orbán: Úkraína getur ekki unnið stríðið – það mun einungis drepa fleiri

Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, tók á þriðjudag þátt í löngu viðtali á Qatar Economic Forum. Eitt þungu málanna var afstaða Ungverjalands til Úkraínustríðsins. Orbán útskýrði afstöðu Ungverjalands sem er frábrugðin heildarafstöðu ESB. Hann sagði ennfremur, að núverandi ástand muni aðeins leiða til enn fleiri dauðsfalla. „Það er augljóst að Úkraína getur ekki unnið á vígvellinum. Stöðva á stigmögnun stríðsins og hefja friðarviðræður.“

John Micklethwait, aðalritstjóri Bloomberg, tók viðtal við Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands á pallborði Efnahagsráðstefnu í Doha, höfuðborg Katar nýlega.

Hlutverk stjórnmálamanna er að bjarga mannslífum

Orbán sagði Micklethwait og gestum, að afstaða Ungverjalands til Úkraínu sé, að landið er ekki í fjarska heldur nágrannaríki sem hefur einnig umtalsverðan ungverskan minnihluta í landi sínu – margir hverjir taka nú þegar þátt í stríðinu og hafa fallið í baráttunni gegn Rússlandi.

„Fyrir okkur er augljóst að lausn áframhaldandi stríðs virkar ekki. Spurningin er ekki hver réðst á hvern, spurningin er hvernig ástandið verður næsta morgun? Næsta morgun verður það staðreynd, að fleiri hafa dáið. Þetta er bara stríð, þar sem við tökum líf af fólki án nokkurs árangurs.“

„Þetta er hörmulegt og hjörtu okkar eru með Úkraínumönnum. Við skiljum hversu mikið þeir þjást en ég er að tala hér sem stjórnmálamaður sem á að bjarga mannslífum. Mikilvægast er að bjarga mannslífum. Sérstaklega ef þú ert sannfærður um, eins og ég, að það séu engir möguleikar á að vinna þetta stríð.“

Eyðum kröftunum í að sannfæra aðra um að þörf sé á vopnahlé og friðarumræðum

Micklethwait spurði Orbán, hvort hann væri virkilega sannfærður um, að Úkraína geti ekki unnið stríðið:

„Afstaða mín byggist á því að skoða raunveruleikann, skoða tölurnar, skoða umhverfið og horfa á þá staðreynd að Nató sendir ekki her. Það er ljóst, að Úkraína getur ekki unnið á vígvellinum.“

„Í stað þess að blanda okkur dýpra inn í átökin ættum við að eyða kröftum okkar í að sannfæra alla um, að þörf sé á vopnahlé og friðarviðræðum. Ekki gleyma staðreyndum, Rússland er 140 milljónir manns og Úkraína er 30 milljónir.“

Af hverju hindrar Ungverjaland vopnasendingar ESB?

Micklethwait benti á nýlega ákvörðun Ungverja um að koma í veg fyrir vopnasendingar ESB til Úkraínu sem ástæðu fyrir því, að landið geti þá ekki unnið stríðið gegn Rússlandi. Ákvörðunin um að koma í veg fyrir vopnasendingar ESB kemur í kjölfar þess, að Úkraína setti ungversk fyrirtæki á lista yfir fyrirtæki, sem þau segja að styðji innrás Rússa. Aðalritstjóri Bloomberg sagði svarta listann vera „smáatriði“ miðað við þessa miklu átök. En Orbán er honum ekki sammála:

„Það er grundvallaratriði, að ef land eins og Úkraína ætlast til þess að fá fjárhagsaðstoð frá okkur, þá ætti landið að sýna okkur virðingu í stað þess að setja fyrirtæki okkar á svartan lista.“

Ekki reiðubúinn að hleypa Svíþjóð með í Nató

Orbán var einnig spurður, hvers vegna Ungverjaland gefur ekki grænt ljós á aðild Svíþjóðar að Nató:

„Samskipti landanna eru afskaplega slæm og við verðum fyrst að bæta úr því. Við viljum ekki koma þeim deilum inn í Nató. Fyrst verðum við að takast á við mismun landanna og síðan erum við tilbúin að styðja þá.“

Ekki hlutverk annarra að segja Ungverjum hvernig þeir eigi að lifa

Varðandi aðra spurningu um samband Ungverjalands við Bandaríkin og hvern Orbán myndi vilja sjá sem forseta landsins – kom hann með skýringar varðandi deilur við önnur lönd:

„Við höfum okkar eigin menningu, okkar eigin lífshætti, ekki vera að skipta ykkur af því. Ekki kenna okkur, ekki segja okkur hvað er rétt og rangt. Það er hvorki hlutverk Bandaríkjanna né annarra þjóða að segja Ungverjum, hvernig þeir eigi að lifa.“

Horfðu á samtalið við Orbán í heild sinni hér að neðan:

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila