Pútín: „Þýskaland er ekki frjáls þjóð – hernumin af Bandaríkjunum eftir seinni heimsstyrjöldina“

Vladimir Pútín, Rússlandsforseti (mynd: Official White House Photo by Shealah Craighead).

Þýskaland hefur ekki verið sjálfstætt land frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Þetta segir Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Að sögn rússneska leiðtogans eru „djúpar rætur og alvarlegar ástæður fyrir öllu því, sem er að gerast núna“.

Þegar Pútín hitti nemendur við ríkisháskólann í Moskvu, talaði hann um það sem gerðist í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina. Þýskaland var hernumið í fjórum hlutum af Stóra-Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og Sovétríkjunum. Sovétríkin fóru, en ekki Bandaríkin, fullyrðir hann.

„Sovétríkin formfestu endalok þessarar hernámsstöðu en Bandaríkin hafa ekki gert það. Og strangt til tekið – tæknilega og lagalega – eru bandarískar hernámssveitir í Þýskalandi. Og þær eru margar.“

Tekur lengri tíma fyrir Evrópu að endurheimta fullveldið

Að sögn Vladimírs Pútíns, sem sjálfur er menntaður lögfræðingur, er þessi skoðun einnig viðtekin meðal þekktra þýskra stjórnmálamanna, sem telja að Þýskaland hafi aldrei verið fullvalda ríki í eiginlegum skilningi þess orðs frá seinni heimsstyrjöldinni.

„Jafnvel þýskir stjórnmálamenn segja, að Þýskaland hafi ekki verið fullvalda ríki í orðsins fyllstu merkingu síðan í seinni heimsstyrjöldinni. Það er ekki ég sem segi þetta og heldur ekki Rússavinir í Þýskalandi heldur áberandi Þjóðverjar, sem segja þetta. Þeir hafa sagt þetta opinberlega. Það eru með öðrum orðum mjög djúpar rætur og alvarlegar ástæður fyrir öllu því, sem er að gerast núna. Ég efast auðvitað ekki um að sá dagur kemur að Evrópa endurheimti fullveldi sitt með einum eða öðrum hætti. En miðað við allt sem er að gerast, þá mun það taka aðeins lengri tíma.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila