Rússar hörfa frá Kerson

Rússar hafa dregið sig út úr hluta Kerson-héraðs vestan við Dnépr-fljót segir rússneski herinn í opinberri yfirlýsingu. Rússar hafa því einnig yfirgefið héraðshöfuðborgina Kerson, sem hafði rúmlega 280.000 íbúa fyrir stríð. Á samfélagsmiðlum er myndböndum og myndum dreift af Úkraínumönnum sem fagna brotthvarfi Rússa.

Annað áfall

Rússar lýstu því yfir að brotthvarfinu væri lokið klukkan fimm að morgni föstudags að rússneskum tíma. Rússneska varnarmálaráðuneytið fullyrðir að tekist hafi að rýma „allt starfsfólk“ sem og herbúnað. Þessar heimildir stangast á við yfirlýsingar yfirvalda Úkraínu sem halda því fram, að rússneskir hermenn hafi verið skildir eftir vestan megin árinnar.

Hörfunin er enn eitt áfallið fyrir Rússa í stríðinu í Úkraínu – það stærsta síðan í september þegar Rússar misstu yfirráð yfir stærstum hluta Karkiv-héraðsins. Héruðin Kerson og Luhansk eru þau einu innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Úkraínu, sem áður voru innlimuð og að fullu undir stjórn Rússa frá því innrásin hófst í febrúar. Nú hafa Rússar ekki lengur fulla stjórn á héruðunum. Þetta þýðir einnig, að stórskotalið frá Úkraínu færist nær Krímskaga, sem Rússar hafa reynt að vernda fyrir árásum Úkraínumanna.

Viðbúið afturhvarf

Undanfarna mánuði hafa Rússar átt sífellt erfiðara með að halda yfirráðum yfir vesturhlið Dnieper. Ekki síst hefur gengið erfiðlega að halda öruggum flutningsleiðum yfir ána. Rússneskar hersveitir hafa smám saman dregið sig til baka og komið varnarlínum sífellt nær ánni. Rafmagns- og vatnsveitur Kerson, auk fjarskipta- og gagnasamskiptum hafa slegið út af og til í haust. Rússar hafa kennt árásum Úkraínumanna á innviði borgarinnar um rafmagnsleysið. Það kemur ekki á óvart, að her Rússa yfirgefi vesturhlið árinnar.

Margir hafa flúið

Í úkraínska manntalinu frá 2001, sem er það fyrsta og eina manntal sem gert var í landinu, þá var um það bil einn af hverjum fimm íbúum Kerson af rússneskum uppruna og næstum helmingur borgarinnar talaði rússnesku. Samkvæmt fullyrðingum Rússa hafa yfir hundrað þúsund almennir borgarar nú yfirgefið borgina og svæðin vestan árinnar og flutt sig til austurhliðarinnar, sem enn er undir stjórn Rússa. Úkraínskar heimildir staðfesta að stór hluti íbúanna hafi yfirgefið Kerson.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila