Sænska kirkjan stundar eftirlit með skoðunum starfsmanna – ásakar einn prestinn um „krossferð gegn íslam“

Skrifstofa sænsku kirkjunnar í Uppsölum skráir skoðanir starfsmanna sinna og prentar út færslur þeirra af samfélagsmiðlum og safnar í sérstakar möppur. Það segir Annika Borg prestur til vinstri á myndinni ofan, sem telur aðferðirnar „alræðislegar.“ Antje Jackelén erkibiskup til hægri á myndinni ( myndir frá sænsku kirkjunni).

Var sökuð um krossferð gegn íslam af því hún sýndi samstöðu með kristnum fórnarlömbum

Sumarið 2016 var presturinn Annika Borg einn af frumkvöðlum Facebook-hópsins „Krossinn minn.“ Hópurinn var stofnaður fyrir alla, sem vildu sýna kristnum stuðning eftir hrottalega hryðjuverkaárás íslamista í Frakklandi á kristna, þar sem einn prestur var afhöfðaður.

Borg fékk mikla gagnrýni innan sænsku kirkjunnar fyrir Facebook-hópinn og var sökuð um að hefja „menningarstríð og krossferð gegn íslam.“

Var kölluð á fund erkibiskups

Annika Borg skrifar í pistli í dagblaðinu Axess að „á aðalskrifstofu kirkjunnar í Uppsölum er fólk sem kortleggur skoðanir mínar og annarra sem taka þátt í opinberri umræðu og gerir athugasemdir á samfélagsmiðlum.“ Þeir starfsmenn kirkjunnar, sem eru undir eftirliti fái „möppu sem inniheldur prentaðar færslur, athugasemdir eða greinar sem dregnar eru fram þegar viðkomandi er kallaður til biskups eða erkibiskups“.

Í hlaðvarpsviðtali í desember 2020 lýsir Annika Borg, þegar hún var sjálf kölluð til samtals við Antje Jackelén erkibiskup. Fyrir samtalið hafði erkibiskupinn prentað út blaðabunka með færslum sem Annika Borg hafði skrifað á samfélagsmiðla:

„Þetta voru svo sem ekki miklar umræður heldur fjallaði um að ég væri ekki trú skoðunum hennar í opinberum skrifum mínum. En ég hef aldrei lofað slíku í neinu prestaheiti. ég hef lofað að standa fyrir Guðs ríki sem er annað.“ 

Í hlaðvarpinu dregur hún enga dul á að samband hennar og erkibiskupsins sé ekki það besta og sakar Jackelén um „alræðislegar“ aðferðir.

„Ég mun skrifa meira“

Sænski miðillinn Samnytt ræddi við Anniku Borg sem vill ekki tjá sig frekar um reynslu sína af eftirliti sænsku kirkjunnar á skoðunum starfsmanna umfram það sem hún hefur þegar skrifað um í pistli sínum. Hún útskýrir að hún vilji frekar fjalla um það sjálf í komandi pistlum. Borg segir:

„Ég mun skrifa meira um það og þá verður myndin líklega skýrari. Ég kýs að gera það sjálf og tjái mig ekki frekar um þann pistil.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila