Sænski herinn mun aðstoða lögregluna gegn glæpahópunum

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, var þungur á brún á blaðamannafundinum í gær. Hann tilkynnti um nýtt samstarf hers og lögreglu og væntanlegar lagabreytingar svo hægt sé að nota herinn í baráttunni við glæpahópana (skjáskot SVT).

Eftir fund forsætisráðherra Svíþjóðar, Ulf Kristersson, með yfirhershöfðingja og ríkislögreglustjóra, þá mun sænski herinn verða til taks fyrir lögregluna innan ramma núverandi laga í baráttunni gegn glæpahópunum. Ríkisstjórn Svíþjóðar boðaði á blaðamannafundi að hraðað verði breytingum laga til að hægt verði að nota herinn í ríkari mæli en núverandi lög heimila.

Ríkisstjórnin mun í næstu viku taka ákvörðun um að herinn geti stutt lögregluna innan ramma gildandi laga. Einnig verður tekin ákvörðun um að breyta lögum þannig, að lögreglan eigi auðveldara með að fá aðstoð hersins. Það tilkynnti Ulf Kristersson forsætisráðherra á blaðamannafundi föstudag.

Fordæmalaust ofbeldi

September er mannskæðasti mánuður byssudrápa síðan desember 2019. Ulf Kristersson forsætisráðherra átti fund með Micael Bydén yfirhershöfðingja og Anders Thornberg ríkislögreglustjóra um glæpastríðið á föstudag. Kristersson sagði á blaðamannafundi eftir þann fund:

„Svíþjóð er í afar óvenjulegri stöðu núna. Ofbeldisbylgjan sem við sjáum núna er fordæmalaus.“

Umræður um hvernig samstarf lögreglu og varnarliðs eigi að líta út eru þegar hafnar. Að sögn ríkislögreglustjóra gæti það þýtt aðstoð við eftirlit, flutninga og farartæki og að leggja sitt af mörkum með getu til greiningar.

Ábyrgð ríkisins að tryggja að glæpamenn drepi ekki einn mann á dag

Kristersson bendir á, að Svíar hafi haft mjög þröngan möguleika til að nýta úrræði hersins í lögreglumálum og fyrir því séu ríkar ástæður. Meðal annars vegna þess að her og lögregla hafa mismunandi verkefni og þjálfun og mismunandi lög gildi um þau.

„En lögreglan getur ekki gert allt. Til þess að lögreglan geti staðið við sitt verða aðrir að leggja sitt af mörkum. Spurningin er hvort aðrir geti lagt lögreglunni lið? Þegar öllu er á botninn hvolft, þá hlýtur það að vera á ábyrgð ríkisins að tryggja, að skipulagðir glæpamenn skjóti ekki einn mann til bana á hverjum degi í Svíþjóð.““

Allt gert til að styðja lögregluna

Gunnar Strömmer dómsmálaráðherra segir, að ríkisstjórnin muni á næstunni koma með nákvæma útlistun á hvaða lagabreytingar verði lagðar til og hvernig nánar tiltekið samstarf lögreglu og varnarliðs muni líta út. Hann segir:

„Það er ljóst, að við verðum að gera allt sem við getum til að styðja lögregluna.“

Hér má sjá myndskeið af blaðamannafundinum

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila