Sameinuðu þjóðirnar á krísufundi um Kóranabrennur í Svíþjóð

A.m.k. 57 múslímsk lönd í heiminum vilja setja alþjóðleg lög sem banna Kóranabrennur. (Mynd: Wikipedia/Frida Tørring).

Pakistan bað um aukafund í mannréttindaráði SÞ um Kóranabrennur í Svíþjóð. Fundurinn verður haldinn í byrjun næstu viku. Að minnsta kosti 57 múslímsk ríki vilja að sett verði alþjóðalög sem banna Kóranabrennur. Sænska ríkisstjórnin ræðir lagabreytingu til að banna Kóranabrennur í landinu. Fjöldi umsókna um að brenna Kóraninn hafa borist til lögreglunnar í Svíþjóð.

Fulltrúi mannréttindaráðs SÞ, Pascal Sim, segir að krísufundur SÞ í næstu viku sé afleiðing af því, hversu margar Kóranabrennur séu haldnar í Evrópu og öðrum löndum. Þau 57 ríki sem vilja banna Kóranabrennur í heiminum eru meðlimir í íslamska sambandinu OIC. Fjöldi mótmæla hafa verið út um víða veröld í múslímskum löndum gegn Kóranabrennum í Svíþjóð, sænski fáninn brenndur á mörgum stöðum og sendiherrar Svíþjóðar kallaðir inn á teppið.

Sænska ríkisstjórnin opnar á að banna Kóranabrennur

Sænski dómsmálaráðherrann, Gunnar Strömmer, sagði í viðtali við sænska ríkisútvarpið SR:

„Við munum taka heildarafstöðu í þessu máli núna. Við gerum það í ljósi þessa alvarlega ástands sem hefur skapast og hefur áhrif á öryggismálin.“

Æstur íslamisti rífur niður merki sænska sendiráðsins í Bagdad (skjáskot Twitter).

Ríkisstjórnin í Svíþjóð segir að Kóranabrennur í Svíþjóð hafi haft alþjóðleg neikvæð áhrif, til dæmis réðust reiðir múslímar á sænska sendiráðið í Bagdad og kröfuðust banns við Kóranabrennum í Svíþjóð. Sænska kirkjan vill banna kóranabrennur og fjöldinn allur af opinberum stofnunum og flokkum í Svíþjóð vilja sjá bann jafnvel þótt það þýði skerðingu á málfrelsi sem er verndað í stjórnarskrá Svíþjóðar. Sænska sjónvarpið birti niðurstöður könnunar Kantar Public sem sýnir að 53% af Svíum vilja láta banna Kóranabrennur. Bæði saksóknari og dómstólar hafa hvað eftir annað tilkynnt, að það er leyfilegt samkvæmt stjórnarskránni að brenna Kóraninn og lögreglan hefur fengið ofanígjöf, þegar hún hefur reynt að koma í veg fyrir slíkar brennur. Núna hafa margar óskir um að halda Kóranabrennur og Biblíubrennur komið til sænsku lögreglunnar.

Spil um inngöngu Svíþjóðar í Nató og flugvélakaup Erdogans

Í bakgrunninum er toppfundur Nató í Vilníus í næstu viku, þar sem lokaatlagan fyrir samþykki Svíþjóðar í Nató fer fram. Tíð fundahöld hafa verið á milli embættismanna Svíþjóðar og Bandaríkjanna og Tyrklands. Stóri draumur Erdógan að fá tvíhliða fund með Biden í næstu viku gæti orðið að veruleika og hann fengið bandarískar orrustuþotur næstum gefins til að hleypa Svíþjóð inn í Nató. Þetta baktjaldamakk mun ná hámarki og lendingu á hvern veginn sem hún fer á Nató fundinum í næstu viku.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila