Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands sat fyrir svörum blaðamanna á yfir fjögurra tíma blaðamannafundi í Moskvu í gær. Meðal viðstaddra blaðamanna var Haukur Hauksson, sem bar fram tvær fyrirspurnir til Lavrov. Fjallaði sú fyrri um ummæli Finnlandsforseta sem tók upp Vetrarstríðið í nýársræðu sinni og líkti Pútín við Stalín. Síðari spurningin var um notkun orða eins og heimsvaldastefna, nýlendustefna og ný orð eins og nýlíberalismi og glóbalismi. Er þessum orðum ofaukið og ef ekki, hvaða þýðingu hafa þau í því ástandi sem ríkir í dag?
Ef Finnland og Svíþjóð ganga í Nató munum við taka hernaðarlegar og tæknilegar ákvarðanir okkar megin landamæranna
Lavrov gaf sér góðan tíma að svara spurningunum og sagði m.a. að hann hefði orðið mjög hissa á gjörbreyttri stefnu Finna í varnarmálum að sækja um inngöngu í Nató ásamt Svíþjóð. Lavrov sagði meðal annars (í lausri þýðingu):
„Trúlega hafa alltaf verið til öfl andstæð Rússum í Finnlandi, sem hafa falið sig á bak við falleg orð og hjálm Evrópusambandsins. En ég var hissa á ummælum Finnlandsforseta, sem vitnaði beint í Pútín og Stalín í áramótaræðu sinni og líkti Úkraínu í dag við Finnland þeirra tíma og að Pútín myndi tapa stríðinu í Úkraínu.“
„Það er sorglegt að sjá, að margir góðir hlutir sem gerðir hafa verið þökk sé Finnlandi, hafa núna verið eyðilagðir. Sérstaklega sá umsnúningur að vilja ganga í Nató og verða hluti þess. Við munum að sjálfsögðu draga okkar ályktanir, ef Finnland og Svíþjóð verða meðlimir í Nató, ef af því verður. Við munum taka bæði hernaðarlegar og tæknilegar ákvarðanir okkar megin við landamærin.“
Gæfa Íslands að vera ekki aðildarríki ESB
Lavrov ræddi um orðanotkun orðanna sem Haukur Hauksson spurði um og segir Vesturlönd vera með gamaldags nýlendustefnu með nútíma aðferðum. Hann segir að ekki sé lengur verið að taka fólk sem þræla en engu að síður ná t.d. Bandaríkin sömu markmiðum varðandi ESB með nútímalegri aðferðum. Hér eru Íslendingar heppnir að vera ekki aðildarríki að ESB:
„Ísland er ekki aðildarríki Evrópusambandsins. Það er gæfa ykkar, vegna þess að ESB hefur glatað sjálfstæðinu og er fylgihnöttur Nató. ESB gefur út opinberar tilkynningar til að niðurlægja okkur. Franski fjármálaráðherrann sagði, að Frakkar þyrftu að hvetja Bandaríkin til að muna eftir hagsmunum Frakka, því iðnaðurinn í Evrópu greiðir fjórum sinnum hærra verð fyrir náttúrulegt gas en Bandaríkjamenn. Það mun gera alla framleiðslu í Evrópu mun dýrari.“
Lavrov bendir á að samkeppnismáttur aðildarríkja ESB minnki og það muni hafa áhrif á alla heimsbyggðina – ekki síst lönd eins og Kína.
Sauli Niinistö forseti Finnlands sagði í áramótaræðu sinni:
„Ef Rússar héldu, að stórfelld ógn myndi knýja Úkraínu hratt á kné, þá gerðu þeir alvarlega dómgreindarvillu. Ekki er hægt að komast hjá því að hugsa um hversu ástandið líkist vetrarstríðinu okkar, þegar Sovétríkin gerðu ráð fyrir að þeir myndu geta gengið inn í Helsinki innan tveggja vikna. Stalín og Pútín, sem leiðtogar lands undir einræðisstjórn, yfirsáust eitt lykilatriði. Þá staðreynd, að fólk sem býr í frjálsu landi hefur sinn eigin vilja og sannfæringu. Og að þjóð sem stendur saman er gríðarlegt afl.“
Hlýða má blaðamannafundinn í heild á myndbandinu hér að neðan. Fyrirspurnir Hauks Haukssonar eru 1:24:30 inn í fundinum.