Staða Boris Johnson erfið og í senn vandræðaleg

Eins og sjá má á mynd sem tekin var af garðveislunni er ekki annað að sjá en Boris hafi verið þar.

Boris Johnson forsætisráðherra hefur upplifað betri daga á stjórnmálaferli sínum en þessa dagana beinast að honum öll spjót vegna garðveislu sem hann hélt í embættisbústað sínum í maí í fyrra. Í þættinum Heimsmálin, fréttir og fréttatengt efni af erlendum vettvangi í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Gústaf Skúlason um málið og hvert mögulegt framhald þess verði.

Þessi litla garðveisla hefur undið upp á sig og orðið að martröð fyrir Johnson sem nú hefur þurft að koma með skýringar á því hvernig á því standi að veislan var haldin á sama tíma og harðar samkomutakmarkanir tóku gildi. Í þættinum sagði Gústaf að skýringar Johnson á því hvort hann hafi verið í veislunni hafi ekki fallið í góðan jarðveg og þótt afar loðin svo ekki sé fastar að orði kveðið. Johnson svaraði því nefnilega til að hann hefði verið í garðinum við garðvinnu fyrr þann dag sem veislan var haldin.

Fast er lagt nú að Boris Johnson að segja af sér vegna málsins bæði af andstæðingum og samherjum í stjórnmálum. Til þess að bæta gráu ofan á svart gæti hann átt á hættu að fá á sig kæru og mögulega dóm fyrir að brjóta gegn sóttvarnalögum, lögum sem hann setti sjálfur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila