Stefán laus við Sigríði Dögg, sem rak Hjálmar

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Dögg, formaður Blaðamannafélagsins og fréttamaður, fór í launalaust leyfi frá RÚV daginn áður en hún rak Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóra félagsins og settist sjálf í stól framkvæmdastjóra.

Ég fékk launalaust leyfi í gær og rak Hjálmar í dag, segir Sigríður Dögg efnislega í viðtengdri frétt.

Hvort var Sigríði Dögg gert að hætta á RÚV eða bað hún um leyfi? Nokkur munur þar á. Það tíðkast ekki hjá RÚV að reka blaðamenn sem koma sér í öngstræti og geta ekki skrifað fréttir án þess að brjóta gegn faglegum kröfum og siðagildum er fylgja starfinu.

Víst er að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri ræddi við Sigríði Dögg eftir að hún játaði á sig skattsvik með færslu á Facebook 11. september sl. haust. Faglegar spurningar vakna ef fréttamaður er uppvís að skattsvikum. Trúverðugleiki fréttastofu RÚV er í húfi. Er ríkisfjölmiðillinn í stakk búinn að fjalla um skattsvik annarra ef fréttamenn komast upp með að svíkja undan skatti án frekari umfjöllunar? Eru skattsvik fréttamanns einkamál en skattsvik annarra fréttamál?

Í fundi stjórnar RÚV 27. september síðast liðinn viðurkennir Stefán Eiríksson að hafa rætt við Sigríði Dögg eftir að hún játaði á sig skattsvik. Stefán hafði ekki frumkvæðið að upplýsa stjórnina heldur var hann inntur eftir máli fréttamannsins af stjórnarmanni. Fundargerðin er loðin um samtalið sem útvarpsstjóri átti við undirmann sinn. Þar stendur:

Útvarpsstjóri var spurður um umfjöllun í fjölmiðlum um starfsmann félagsins þar sem komu fram ásakanir á hendur viðkomandi. Útvarpsstjóri kvaðst hafa rætt við starfsmanninn og taldi ekki þörf á því að málið yrði skoðað nánar.

Orðalagið ,,taldi ekki þörf á að málið yrði skoðað nánar“ er afhjúpandi. Útvarpsstjóri hefur fyrir sið að losna við fréttamenn, sem ekki eru húsum hæfir á Efstaleiti, en án þess að reka þá. Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri sagði skyndilega upp í nóvember 2021. Í janúar 2022 hætti Helgi Seljan eftir að hafa ,,verið í leyfi“ um tíma, rétt eins og Sigríður Dögg er komin ,,í leyfi“. Í febrúar á liðnu ári varð brátt um Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks. Öll þrjú eru með tengingu við byrlunar- og símastuldsmálið sem er í sakamálarannsókn. Þau réðu ekki ferðinni um starfslok hjá ríkisfjölmiðlinum. Atburðarásin knúði á um niðurstöðu. Þremenningarnir hættu en var ekki sagt upp.

Stefán gæti hafa sagt eitthvað á þessa leið við Sigríði Dögg: Eins og þú veist er fréttamönnum sjaldnast sagt upp þegar staða þeirra er faglega óverjandi. Það kemur illa út í fjölmiðlaumræðunni að fréttamenn séu reknir. Þá er í leiðinni viðurkennt að RÚV hafi orðið á mistök. Það viljum við ekki. En vegna skattsvikamálsins vil ég að þú takir þér til fyrirmyndar Rakel, Helga og Þóru sem tóku pokann sinn þegar öllum var ljóst að faglega var ótækt að þau störfuðu áfram á fréttastofu sem vill halda í trúverðugleika sinn.

Hafi Stefán sagt eitthvað á þessa leið varð Sigríður Dögg að leita sér að starfi. Ekki gat hún orðið blaðamaður á öðrum fjölmiðli með óuppgert skattsvikamál á bakinu. Ekkert fyrirtæki eða stofnun gæti gert hana að talsmanni sínum af sömu ástæðu. Sigríður Dögg hafði áður starfað sem almannatengill.

Hvað var þá eftir?

Jú, staða framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands. Eitt vesen þó. Fyrir á fleti er Hjálmar Jónsson. Í fyrradag var málið leyst. Sigríður Dögg rak Hjálmar úr starfi og settist sjálf í volgan stólinn og fær strax beinan aðgang að fjármunum félagsmanna. Sér til halds og trausts við brottreksturinn hafði Sigríður Dögg varaformann sinn, Aðalstein Kjartansson, sakborning í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Sjaldan er ein báran stök í siðleysinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila