Stjórnmálamenn í Ástralíu senda nýja áskorun um Assange til Bandaríkjanna

Myndin er frá mótmælum við Piccadilly Circus í London í maí 2023. (Mynd © Alisdare Hickson, CC 2.0).

63 ástralskir stjórnmálamenn hafa skrifað undir nýtt bréf til Bandaríkjanna, þar sem þeir biðja enn og aftur um að fallið verði frá framsalskröfum blaðamannsins Julian Assange. Stjórnmálamennirnir vara einnig við „viðvarandi reiði í Ástralíu“ verði hann framseldur til Bandaríkjanna.

Í apríl s.l. sendu 48 ástralskir stjórnmálamenn frá ýmsum flokkum bréf til Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, með áskorun um að hætta við tilraunir Bandaríkjanna til að fá Assange framseldan frá Bretlandi og leyfa honum þess í stað að koma heim til Ástralíu. Í bréfinu var bent á að slíkt framsal gæti meðal annars skapað „hættulegt fordæmi“ fyrir fjölmiðlafrelsið og skaðað enn frekar alþjóðlegt orðspor Bandaríkjanna.

Bandaríkin halda áfram með framsalskröfur

Þegar Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Ástralíu í ágúst sagði hann hins vegar, að ljóst væri að Bandaríkjamenn væru ekki tilbúnir til að falla frá framsalskröfum á stofnanda Wikileaks, þar sem hann er „sakaður um mjög alvarlegt glæpsamlegt athæfi.“ Ástralski þingmaðurinn Andrew Wilkie sakaði þá Bandaríkin um hefnigirni og benti á að rannsóknir hefðu sýnt, að uppljóstranir Wikileaks hefðu ekki leitt til þess, að neinn yrði fyrir skaða.

Nú hafa ástralskir stjórnmálamenn aftur skrifað ákall (sjá bréf pdf að neðan), að þessu sinni með 63 þingmönnum og öldungadeildarþingmönnum sem skrifuðu undir bréfið, segir í breska The Guardian.

Rangt að halda áfram ofsóknum

Í bréfinu kemur meðal annars fram:

„Það er rangt að verið sé að halda áfram að ofsækja Assange og svipta hann frelsi, þegar haft er í huga hversu lengi og við hvaða aðstæður hann hefur þegar verið sviptur frelsi.“

„Það þjónar engum tilgangi, þetta er ósanngjarnt og við segjum það skýrt – þar sem vinir eiga alltaf að vera heiðarlegir við vini – að langvarandi eftirför að Assange dregur úr þeim þýðingarmikla grundvelli tillitssemi og virðingar sem Ástralir bera fyrir bandaríska réttarkerfinu.“

Þverpólitískt frumkvæði

Leiðtogar þingmannahópsins Fáum Julian Assange Heim „Bring Julian Assange Home“ höfðu frumkvæði að bréfinu. Í hópnum eru þingmennirnir Andrew Wilkie, Josh Wilson frá Verkamannaflokknum, Bridget Archer frá Frjálslynda flokknum og öldungadeildarþingmaðurinn David Shoebridge frá The Greens. Undirskriftirnar benda til áframhaldandi aukins fylgis meðal meirihluta ólíkra flokka í landinu og þær vara einnig við „viðvarandi reiði“ verði Assange framseldur til Bandaríkjanna. Segir í bréfinu:

„Látum það vera algjörlega skýrt, að ef Julian Assange verður fluttur frá Bretlandi til Bandaríkjanna, þá mun verða mikil og viðvarandi reiði í Ástralíu.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila