Stríðið í Úkraínu: Gagnsókn líklega mistekist og stuðningur við Úkraínu minnkar

Í heimsmálunum í dag ræddi Pétur Gunnlaugsson við Hilmar Þór Hilmarsson prófessor við Háskólann á Akureyri meðal annars um þróun Úkraínustríðsins. Óvissuna á Bandaríkjaþingi um áframhaldandi aðstoð við Úkraínu og hugsanlega framvindu stríðsins. Einnig ræddu þeir um innrás Hamas á Ísrael og þær skelfilegu aðstæður sem eru á Gaza svæðinu í mannúðarmálum. Hættuna á útbreiðslu stríðsins og hvaða lausnir gætu verið framundan, t.d. tveggja ríkja lausn.

Úkraína líklega ekki aðildarríki ESB í bráð

Í samtali Péturs og Hilmars kom fram að Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu hafi átt nýlega fund með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB í Kiev. Úkraína er umsóknarríki að ESB og hefur þess vegna átt í viðræðum við stofnunina um umbætur í landinu og fengið efnahagsaðstoð frá ESB í kjölfarið. Litlar líkur eru á að Úkraína verði aðili að ESB á næstu árum þó komið hafi fram að landið hefur náð árangri í umbótum á afmörkuðum sviðum.

Landamæradeilur við Rússa verða langvinnar

Stríðið heldur áfram og boðuð gagnsókn Úkraínu hefur litlu skilað. Nýlega lét hershöfðingi í her Úkraínu í ljós þá skoðun að pattstaða (e. stalemate) væri í stríðinu við Rússland. Því mótmælti Zelensky en lýsti áhyggjum yfir því að átökin á Gaza væru að taka athyglina frá stríðinu í Úkraínu. Flest bendir til að gagnsókn Úkraínuhers hafi mistekist og að fjárhagsstuðningur við Úkraínu frá veturlöndum muni fara minnkandi.
Líklegt er að Úkraína muni eiga í landamæradeilum við Rússland í langan tíma sem í raun útilokar fulla aðild landsins að ESB. Sama má segja um NATO aðild.

Stríðið stendur líklega yfir í 2-3 ár til viðbótar

Í þætti Péturs og Hilmars kom fram að stríðið í Úkraínu mun líklega halda áfram hugsanlega í 2 til 3 ár í viðbót. Engir samningar séu í sjónmáli. Þrjú mál sem eru sérstaklega erfið til úrlausnar eru í fyrsta lagi deilur um yfirráð yfir landi sem Rússar hafa tekið (nú ca. 20 til 25% af Úkraínu), og í öðru lagi deilur yfir stöðu Úkraínu sem lands að stríði loknu þ.e. aðild að NATO og ESB. Í þriðja lagi deilur um skaðabætur. Þar við bætist að ekkert traust er á milli Vesturlanda sem styðja Úkraínu og Rússland.

Ef Bandaríkin hinsvegar draga verulegu úr fjárhagsstuðningi við Úkraínu eða hætta honum alveg, mun stríðinu líklega ljúka fyrr en þá alls ekki Úkraínu í vil. Við þær aðstæður myndi Úkraína hugsanlega tapa meira landsvæði en þegar er orðið.

Þá telur Hilmar að það sé ólíklegt að Bandaríkin muni senda her sinn til Úkraínu til þess að aðstoða Úkraínu í baráttunni við Rússa. Slíkt myndi vera of áhættusamt og myndi ekkert annað þýða en heimsstyrjöld.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila