Svandís Svavarsdóttir misbeitti valdi sínu í hvalveiðimálinu

Pétur Gunnlaugsson ræddi við Vilhjálm Birgisson formann Verkalýðsfélags Akraness og formann Starfsgreinasambandsins Íslands í Síðdegisútvarpinu um hvalveiðar, stjórnsýslu og ábyrgð ríkisins. Vilhjálmur sagði í þættinum að Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra hafi misbeitt valdi sínu í málinu með því að stöðva og tefja leyfisveitingar á pólitískum forsendum með þeim afleiðingum að atvinnustarfsemi félli niður og starfsfólk og fyrirtæki urðu fyrir verulegu tjóni. Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Stóðu uppi með kostnað og án tekna

Vilhjálmur sagði í þættinum að hvalveiðar hefðu um árabil skapað umtalsverða verðmætasköpun og mörg störf með beinum og óbeinum hætti. Hann lýsti því að fyrirtæki hefðu þegar ráðið starfsfólk undirbúið vertíð og fjárfest í búnaði þegar leyfi voru afturkölluð eða tafin með þeim afleiðingum að vertíð félli niður og fyrirtæki stæðu uppi með kostnað án tekna.

Ráðherra ítrekað brotlegur – skýr valdníðsla

Í viðtalinu sagði Vilhjálmur að Umboðsmaður Alþingis hefði ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að vinnubrögð ráðherra í málinu hefðu verið ólögmæt. Hann sagði að bæði afturköllun leyfis og tafir á afgreiðslu hefðu verið metnar andstæðar stjórnsýslulögum og að um væri að ræða alvarlegt dæmi um misbeitingu framkvæmdarvaldsins gagnvart löglegri atvinnustarfsemi.

Ekki heimilt að takmarka löglega starfsemi

Vilhjálmur lagði áherslu á í þættinum að atvinnufrelsi væru stjórnarskrárvarin réttindi og að stjórnvöld gætu ekki takmarkað atvinnustarfsemi nema með skýrum lagagrundvelli. Hann sagði að í þessu máli hefði ekki verið sýnt fram á að hvalastofnar væru í útrýmingarhættu og því væru rök fyrir slíkum aðgerðum veik.

Málið kemur til kasta dómstóla

Fram kom í þættinum að Hvalur hf. og Verkalýðsfélag Akraness fyrir hönd þeirra starfsmanna sem Vilhjálmur sagði að hefðu verið ráðnir til starfa þegar leyfi var afturkallað væru að leita réttar síns fyrir dómstólum. Vilhjálmur sagði að krafist væri bóta vegna tapaðra launa og annars tjóns sem hann taldi rekja beint til ólögmætra ákvarðana stjórnvalda og að slík niðurstaða gæti orðið leiðbeinandi um frekari kröfur á hendur ríkinu.

Ákvörðun Svandísar hafði keðjuverkandi áhrif á Vesturland

Vilhjálmur sagði í viðtalinu að stöðvun hvalveiða hefði haft keðjuverkandi áhrif á atvinnulíf á Akranesi og Vesturlandi þar sem fjöldi þjónustufyrirtækja tengdist vertíðinni. Hann lýsti því að óvissan um leyfisveitingar gerði fyrirtækjum nánast ómögulegt að reka starfsemi til lengri tíma og gæti endað með því að atvinnustarfsemi hyrfi.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila