Svíþjóð: Verðbólgan hefur étið upp sjö ára launahækkanir – „Dómsdagur“ bíður sænskra heimila

Stefan Ingves var Seðlabankastjóri Svíþjóðar í 17 ár. Hann hætti störfum um áramótin og segir í viðtali við CNBC, að sænsku heimilanna bíði „dómsdagur.“ Mynd: Frankie Fouganthin (S.I.)

„Dómsdagur“ bíður sænsku heimilanna. Það fullyrðir fráfarandi seðlabankastjóri Svíþjóðar, Stefan Ingves, í viðtali við bandaríska CNBC. Því er spáð, að húsnæðisverð lækki sem afleiðing af hömlulausri verðbólgu og hækkandi húsnæðislánum á markaði, þar sem allt of margir eru skuldsettir.

Ingves hefur hlotið gagnrýni fyrir að nota vaxtavopnið ​​til að reyna að halda verðbólgunni í skefjum, þrátt fyrir að það sé einmitt verkefni hans og Seðlabankans. Miðað við hvernig verðbólgan hefur ætt af stað, þá hefur hann hækkað vextina frekar hóflega og ættu eðlilegir vextir að vera nokkrum prósentum hærri.

Lántakendur á húsnæðismarkaði hafa aðlagast mjög lágum vöxtum og tekið miklu meira lán en þeir ráða í raun við fjárhagslega undir eðlilegum vöxtum. Milljónir heimila yrðu gjaldþrota ef Seðlabankinn hækkaði stýrivexti eins mikið og verðbólgan réttlætir.

Ingves er einnig harðlega gagnrýndur fyrir að hafa haldið stýrivöxtum á lágu stigi, jafnvel núll- og mínusvöxtum og þar með valda stórum hluta þenslunnar á húsnæðismarkaðinum og skuldsetningu sænskra heimila. Í báðum tilfellum er sagt, að peningastefnan hafi brugðist og að vaxtavopnið ​​virki ekki lengur til að spyrna gegn verðbólgunni.

Spáir hruni á húsnæðismarkaði

Stefan Ingves segir að hrun sænskra heimila sé óhjákvæmilegt. Ekki vegna þess, að heimilin ráði ekki við vextina, heldur vegna þess að húsnæðisverð muni lækka í kjölfar stórversnandi efnahags heimilanna. Verðbólgan hefur étið upp sjö ára launahækkanir og milljónir Svía eru þegar á hnjánum vegna hás verðs á rafmagni, eldsneyti og matvælum.

Allt dregur þetta úr kaupmætti og þar með eftirspurn á húsnæðismarkaði. Ef verð byrjar að lækka getur paník breiðst út og verðhrun gengið hratt fyrir sig. Öfugt við Bandaríkin, þá hafa sænsku bankarnir töluvert sterkari stöðu gagnvart húsnæðislánaviðskiptavinum sínum. Þeir geta sagt upp lánunum burtséð frá því, hvort greiðslur séu inntar af hendi eða ekki. Bankinn getur síðan elt skuld viðskiptavinarins endalaust. Í Bandaríkjunum gátu skuldarar húsnæðislánastofnana Freddie Mac og Fannie May bara afhent lykilinn að húsinu og síðan verið skuldlausir.

Gagnrýnir stjórnmálamenn harðlega fyrir að hafa skell skollaeyrum við viðvörunum Seðlabankans

Stefan Ingves er alls ekki hissa á því sem er að gerast miðað við hversu „vanvirkur“ markaðurinn er orðinn vegna getuleysis stjórnmálamanna. Það sem er að gerast núna er „nákvæmlega það sem hægt var að búast við.“

„Ég hef ítrekað bent á, að skuldastaða sænskra heimila sé allt of há og dómsdagur verði, þegar vextirnir hækka – og núna hækka vextirnir. Það hefur ekki verið pólitískur vilji til að koma þessum málum í lag og þess vegna erum við hér.“

Verðlækkunin er þegar hafin. 20% verðhækkanir sem fylgdu aukinni eftirspurn meðan á covid stóð, þegar margir töldu sig þurfa meira pláss til að geta unnið heima, hefur þegar fokið út í vindinn. Samkvæmt spá Ingves er þetta aðeins byrjunin og mun fullkomin kreppa skella á húsnæðismarkaðinum og „dómsdagur“ knésetja sænsku heimilin.

Ummæli fyrrverandi seðlabankastjórans um óstjórn í ríkisfjármálum og húsnæðismarkað í upplausn eykur enn frekar á stórversnandi ímynd Svíþjóðar, m.a. vegna alls ofbeldis glæpahópanna.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila