Þegar hrunið kemur – Allt það sem þú þarft að vita um bankana

Andreas Cervenka er einn skarpasti fjármálaskríbent Svíþjóðar og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir. Hann skrifaði fjölda greina í Sænska dagblaðið SvD áður en hann fór til starfa fyrir Aftonbladet, þar sem hann vinnur núna. Hann sendir einnig út fréttabréf og eftirfarandi bréf kom í gegnum tölvulúgu fréttaritara í fyrradag:

Ég sendi þetta fréttabréf aðeins fyrr í þessari viku, því ýmislegt gerðist um helgina. Ekkert sérstakt svo sem. Bara það, að heimurinn var hársbreidd frá fjármálakreppu à la fjórða áratug síðustu aldar. Aftur.
Rétt fyrir afslöppun á föstudagskvöldið var það ljóst, að Silicon Valley bankinn í Bandaríkjunum var á hausnum og bandarísk bankayfirvöld, FDIC, tóku yfir bankann.

Hangir þú ekki með?

Á Twitter bað einhver gervigreindina ChatGPT að útskýra hvað hafi gerst eins og fyrir fimm ára gamalt barn. Við komum strax að orsökum og afleiðingum þessa klúðurs eftir augnablik, en fyrst er mikilvægt að skilja hvernig slíkar aðstæður sem þessar geta skapast. Þetta snýst um banka.

Ef orðrómur færi að berast um IKEA sem leiddi til þess, að viðskiptavinir færu sér hægar og hættu að kaupa Billy bókahyllu, þá tilheyrði fyrirtækið sögunni 48 tímum síðar. Það var það sem gerðist með Silicon Valley banka. Á miðvikudaginn í síðustu viku var bankinn jafnvirði 150 milljarða sænskra króna, á föstudaginn núll.

Það sem margir gleyma er að sparnaður á bankareikningi er það sama og að lána bankanum peningana. Að taka út peninga þýðir krafa um endurgreiðslu lánsins. Oftast er það ekkert vandamál. En stundum getur það verið vandasamara. Enginn banki situr á 100% af innlánum viðskiptavinanna í reiðufé. Aðalatriðið við að vera banki er að lána út peninga, ekki bara að sitja á þeim.

Innistæðutryggingin varð til í Kreppunni miklu

Þessi eðlislæga viðkvæmni, að viðskiptavinir geti hlaupið á dyr hvenær sem er og tekið alla framtíð bankans með sér, er ástæðan fyrir því að mismunandi gerðir öryggisneta eru til. Eftir kreppuna á fjórða áratugnum var innstæðutryggingin tekin upp. Hugmyndin er sú, að litli maðurinn gætı fengi peninga sína til baka frá ríkinu þótt bankinn félli. Þetta hefur leitt til þess að margir líta á „peninga í bankanum“ sem öruggasta öryggishólfið.

Það er ekki alltaf raunin. Innstæðutryggingin er með efri mörk í öllum löndum, í Bandaríkjunum er hún 250.000 dollarar. Ef þú átt meira en það er hætta á að þú tapir hluta af peningunum þínum. Þetta er ekki bara tilgáta, það hefur gerst í seinni tíð í kreppunni á Kýpur, að ríkir viðskiptavinur hafa í sumum tilfellum misst helminginn af innlánum sínum. Þegar tæknifyrirtækin sem höfðu lagt reiðufé sitt inn hjá Silicon Bank Valley áttuðu sig á þessu, þá braust skelfingin út. Peningarnir streymdu út og ekki bara frá SBV heldur einnig frá nokkrum smærri og meðalstórum bönkum.

Fyrsta stafræna bankaáhlaupið

Hin sígilda mynd af bankakreppu eru langar biðraðir fyrir utan bankana. Í dag gengur allt miklu hraðar fyrir sig. Árið 2023 fara úttektir fram í gegnum snjallsímann og mætti ​​kalla SBV fyrsta „stafræna bankaáhlaupið“. Til að reyna að koma í veg fyrir atburðarás sem líkist heimsendamynd frá Hollywood, kom bandaríska ríkið með aðgerðir á sunnudag. Skilaboðin voru þau, að allir viðskiptavinir yrðu skaðlausir, ekki bara þeir sem ættu minna en $250.000. Það var frekar rausnarlegt því yfir 90% viðskiptavina SBV voru slíkir stórspilarar. Sama var uppi á teningnum um annan banka, Signature Bank, sem gaf einnig upp öndina um helgina.

Þar með settu Janet Yellen fjármálaráðherra og Jerome Powell seðlabankastjóri fordæmi. Ef aðrir bankar eiga í vandræðum verður að bjóða viðskiptavinum þeirra sömu aðstoð. Í Bandaríkjunum eru um það bil 19 þúsund milljarðar dollara á bankareikningum. Um 10 þúsund milljarðar dala voru tryggðir með innstæðutryggingunni á föstudaginn var. Núna var skuldbindingin skyndilega aukin um aðra 9.000 milljarða dollara. Tilkynningin dugði þó ekki til að róa öldurnar, hlutabréf í mörgum bönkum voru í frjálsu falli á mánudaginn.

Ein ástæða getur verið sú, að viðskiptavinir treysta ekki loforðum um að allt sé í lagi. SBV hafði notað fé viðskiptavina sinna og keypt skuldabréf. Þegar vextirnir hækkuðu lækkuðu bréfin í verði (því lægri sem vextir þeim dýrari eru skuldabréf og öfugt). Þegar bankinn þurfti að selja bréf til að afla reiðufjár kom tapið í ljós. Þetta er vandamál margra banka. Í Bandaríkjunum er talið að tapið sé yfir 600 milljarða dollara.

Tryggingarféð dugar fyrir 0,06% innlána

Annað sem sumir eru farnir að velta fyrir sér er, hvaðan peningarnir koma til að borga fyrir hugsanlega djúpa bankakreppu. Federal Deposit Insurance Corporation, sem hefur það hlutverk að sjá um innstæðutrygginguna í Bandaríkjunum, hefur 128 milljarða dollara. Það samsvarar 0,06% af 19 000 milljörðum dollara sem eru á bankareikningum. Meðal annars – minntist ég nokkuð á að bandaríska ríkið skuldar nú þegar 31 000 milljarða dollara?

Sumir hafa sagt, að björgun bankanna að þessu sinni sé ekki svokölluð björgun. Það er ekki alveg rétt. Það er rétt að hluthafarnir tapa fé sínu að þessu sinni ólíkt því sem var árið 2008. En sem hluti af björguninni er bönkunum heimilt að taka lán frá Seðlabanka Bandaríkjanna með verðbréf sem tryggingu. En ekki á markaðsverði heldur kaupverði.

Fjármálafræðingurinn Jim Rickard líkti því við að fá nýbílslán á 15 ára gamlan bíl. Í reynd þýðir þetta að bankarnir þurfa ekki að taka afleiðingum misheppnaðra spákaupmanna sinna. Og fyrirtækin, sem lánuðu bönkum milljarða án þess að gera heimavinnu varðandi áhættuna, þurfa heldur ekki að læra neitt. Þetta getur rutt nýja braut fyrir verri kreppur. Það er hægt að skilja, hvers vegna Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið reyna að koma til hjálpar. Þeir bera að hluta til ábyrgð á ástandinu með því að örva hagkerfið um of í langan tíma. Eða eins og Wall Street Journal skrifar í leiðara:

„Það er ekki hægt að framkvæma óábyrgustu peninga- og ríkisfjármálatilraun sögunnar án þess að reikningurinn komi fyrr eða síðar“.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila