Yfir þrjátíu námskeið voru haldin í sumarsmiðjum grunnskólakennara sem fóru fram á dögunum í Háteigsskóla, Menntavísindasviði og víðar. Um 700 kennarar voru skráðir til leiks nú þegar sumarsmiðjurnar fóru fram í raunheimi í fyrsta sinn í þrjú ár. Þátttakendur voru því að vonum glaðir að geta hist á starfsþróunardögunum til að læra og efla sínar kennsluaðferðir með öðrum kennurum.
Mikill áhugi á tækni í skólastarfi
Áherslur Menntastefnu Reykjavíkurborgar „Látum draumana rætast“ eru fléttaðar inn í sumarsmiðjurnar þar sem áhersla er á sjálfseflingu, félagsfærni, læsi, sköpun og heilbrigði. Námskeiðin og smiðjurnar voru fjölbreyttar og margt sem vakti áhuga s.s. eins og smiðjur sem tengjast tækni í skólastarfi og leiðsagnarnámi en leiðsagnarnám er þróunarverkefni sem skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur haldið utan um í nokkur ár.
Leiðsagnarnámið felur í sér fjölbreyttar kennsluaðferðir þar sem nemendur taka virkan þátt í að móta eigið nám, mikið er unnið með samskipti og kennarar eru þjálfaðir í að nýta endurgjöf með markvissum hætti. Þá var mikill áhugi á námskeiðum um kynfræðslu, móttöku flóttabarna, áhrif áfalla á líðan barna og námskeiðum þar sem listgreinar eru nýttar til að kenna hefðbundnar námsgreinar. Til að mynda teikning og tjáning og hvernig kenna megi stærðfræði undir berum himni svo fátt eitt sé nefnt.