Zelenskí segir Rússa ætla að kasta sprengju á sig sjálfa og kenna Úkraínu um – Rússar segja Úkraínu ætla að sprengja „skítuga“ sprengju og kenna Rússum um

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, sem er hér á mynd með Pútín, lýsti því yfir á sunnudag að Rússa grunaði að Úkraína ætli að nota geislavirka svokallaða óhreina sprengju gegn rússneskum hersveitum (mynd Kremlin.ru).

Ásakanirnar ganga á víxl og stríðsaðilar segja óvininn skipuleggja árás undir fölsku flaggi til að fá ástæðu fyrir enn meiri sprengjukrafti, dauða og eyðileggingu

Rússar eru sakaðir um að ætla að sleppa „skítugri sprengju“ á eigin hermenn og nota sem ásökun fyrir stigmögnun stríðsins í Úkraínu samkvæmt Reuters. Rússar segja hins vegar að Úkraína sé langt komin með framleiðslu tveggja slíkra sprengja, sem nota á í Úkraínu og kenna Rússum um og stigmagna þannig stríðið.

Skítug sprengja er hefðbundin sprengja útbúin með geislavirkum úrgangi sem nóg er til af í Tjernobyl. Talað er um að kobolt-60 og strontium-90 verði notað og samkvæmt Rússum, þá er langt komið með að byggja tvær slíkar sprengjur í Úkraínu. Varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Shoigu, hringdi til leiðtoga varnarmála í Nató-ríkjunum um helgina m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Tyrklandi að sögn Politico. Var haft samband við varnarmálaráðherra Bandaríkjann í tvígang, bæði á föstudaginn og á sunnudag og hann hafnar ásökunum Rússa.

Utanríkisráðherrar Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna tilkynna í sameiginlegri yfirlýsingu, að þeir hafni ásökunum Rússa. Ráðherrarnir skrifa:

„Lönd okkar hafa gert það ljóst, að við höfnum öllum augljóslega röngum ásökunum Rússa, um að Úkraína sé að búa sig undir að nota óhreina sprengju á eigin yfirráðasvæði. Heimurinn sér í gegnum allar tilraunir til að nota þessa fullyrðingu sem ástæðu fyrir stigmögnun stríðsins.“

Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, sakar Rússa um að ætla að beita skítugri sprengju gegn sjálfum sér til að kenna síðan stjórninni í Kænugarði um sprengjuna. Zelenský segir:

„Ef Rússar segja, að Úkraína sé að sögn að undirbúa eitthvað, þá þýðir það aðeins eitt: Rússland hefur þegar undirbúið þetta allt.“

Vestrænir fjölmiðlar fullyrtu nýlega, að Rússar hefðu sprengt eigin gasleiðslur í Eystrasalti.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila