156 þúsund brottfarir erlendra farþega í febrúar

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 156 þúsund í nýliðnum febrúar samkvæmt mælingum Ferðamálastofu og hafa þær aðeins einu sinnum mælst fleiri í febrúar eða árið 2018. Þetta kemur fram í nýrri tölfræðiskýrslu Ferðamálastofu.

Tæplega þriðjungur brottfara var tilkominn vegna Breta. Brottfarir Íslendinga voru tæplega 37 þúsund í febrúar.

47% brottfara Bretar og Bandaríkjamenn

Flestar brottfarir í febrúar voru tilkomnar vegna Breta, 47.600 talsins, eða tæplega þriðjungur (30,4%) heildarbrottfara. Bandaríkjamenn voru í öðru sæti, um 25.800 eða 16,5% brottfara.

Brottfarir Kínverja voru í þriðja sæti eða 7,4% af heild og Hollendingar í því fjórða (5,0%). Þar á eftir fylgdu Þjóðverjar (4,3%), Frakkar (4,2%), Danir (3,1%), Pólverjar (3,0%), Ítalir (2,4%) og Kanadamenn (2,3%).

Brottfarir erlendra farþega frá áramótum

Frá áramótum hafa um 287 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 258 þúsund talsins. Samtals voru brottfarir í janúar og febrúar í ár um 93,4% af þeim brottförum sem þær mældust sömu mánuði ársins 2018 og 99,7% ársins 2019.

Brottfarir Íslendinga

Brottfarir Íslendinga voru tæplega 37 þúsund í febrúar, 2.200 færri en í febrúar 2023 (-5,6%). Frá áramótum (jan.-feb.) hafa um 73.600 Íslendingar farið utan en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 80.500. Um er að ræða 8,5% fækkun milli ára.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila