16 milljarða fjárframlag forsætisráðherra til Úkraínu ekki rætt á Alþingi

Fjárframlög upp á 16 milljarða til Úkraínu sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur samþykkt og undirritað samning þess efnis voru hvorki rædd í utanríkismálanefnd né fjárlaganefnd þingsins. Þetta segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar ásamt Eyjólfi Ármannssyni þingmanni Flokks fólksins.

Bergþór segir að þó hann viti það ekki fyrir víst verði hann að gefa sér það að málið hafi verið rætt innan ríkisstjórnarinnar áður en ákvörðunin um framlagið var tekin enda sé hér um verulegar fjárhæðir að ræða.

Verið að gagnrýna aðhaldsleysi í fjármálum ríkisins

Hann segist velta því fyrir sér hvort troða eigi málinu inn í fjáraukalögin núna fyrir þinglok eða hvort komið verði með slíka ákvörðun í haust. Það sé mjög sérstakt að sjá þessa 16 milljarða detta á borðið til svona mála á sama tíma og allir aðilar sem veita umsögn um fjármálaáætlun til næstu fimm ára gagnrýna aðhaldsleysi í fjármálum ríkissins.

Samþykkt að styðja Úkraínu en þetta mál ekki rætt

Eyjólfur segir að á dögunum hafi verið samþykkt þingsályktunartillaga til stuðnings Úkraínu en þetta mál hafi ekki komið fram á borðið þar en líklegt sé að ráðherra líti svo á að þetta sé peningalegi hlutinn af þeim stuðningi. Eyjólfur segist gera ráð fyrir að ef greiða eigi þetta í ár fari 4 milljarðar af þessari upphæð í almenna varasjóðinn og málið verði svo rætt í umræðum um fjárlög næsta árs en eigi ekki von á að málið komi ekki inn í fjáraukalög.

Lönd Evrópu að búa sig undir stríð

Aðspurðir um í hvað peningarnir fara segist Eyjólfur ekki þekkja tæknilegu hliðina á málinu, Vesturlönd styðji Úkraínu og þar sé Ísland einnig þar á meðal og segir Eyjólfur að hvort þetta sé leið til þess að þvinga menn að samningaborðinu til að semja frið geti hann ekki sagt til um. Hann segir það hrikalegt ef Úkraína falli og ekki síst fyrir Vesturlönd. Hann hafi verið í Noregi á dögunum og segir Eyjólfur að lönd Evrópu virðast vera að búa sig undir stríð.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila