Aðgerðaáætlun sett af stað til þess að fjölga nemum í starfsnámi

Nemum í starfsnámi verður fjölgað með níu aðgerðum stjórnvalda. Aðgerðirnar byggja á tillögum starfshóps um innritun í starfsnám á haustönn 2022 sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði í sumar með fulltrúum frá aðilum vinnumarkaðar, skólameisturum starfsmenntaskólanna og Menntamálastofnun, auk ráðuneytisins.

Aðgerðirnar hafa að markmiði að:

  • auka getu starfsmenntaskólanna til að taka við nemum,
  • liðka fyrir inngöngu eldri umsækjenda,
  • auka starfs- og námsráðgjöf fyrir grunnskólanema,
  • fjölga fagmenntuðum kennurum,
  • stytta nám í uppeldis- og kennslufræði með mati á starfsreynslu,
  • gefa Menntamálastofnun yfirsýn yfir dreifingu umsókna milli skóla til að umsækjendur sem fá höfnun í einum skóla komist að í öðrum og
  • auka samvinnu og samræmingu skóla um framkvæmd og fjármögnun kennslunnar.

Í tilkynningu frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu segir að ráðuneytið hafi unnið að stækkun helstu verknámsskóla og greiningu á húsnæðisstörf framhaldsskóla á undanförnum misserum. Nýtt og stærra húsnæði fyrir Tækniskólann í Hafnarfirðinum er í burðarliðnum í samræmi við ríkisstjórnarsáttmála. Stækkun starfsmenntaaðstöðu Fjölbrautaskólans í Breiðholti um 2.400 fermetra fer brátt í útboð og hefur ráðuneytið falið Borgarholtsskóla að setja af stað nýja braut í pípulögnum. Þá samdi ráðuneytið við nýstofnaða Nemastofu atvinnulífsins í vor um átaksverkefni í að fjölga nemaplássum og fyrirtækjum sem taka við nemum, auk þess að stuðla að góðu starfsumhverfi nema óháð kyni. Nemastofa atvinnulífsins er samstarfsvettvangur atvinnulífsins og skólanna um bætt vinnustaðanám og fjölgun faglærðs starfsfólks í atvinnulífi.

Meginástæðan fyrir höfnun á námsplássi samkvæmt könnun sem starfshópurinn lagði fyrir skólameistara starfsmenntaskóla er skortur á fagmenntuðum kennurum og/eða skortur á viðeigandi húsnæði.

Fyrirsjáanlegt er að mikil þörf er á næstu árum fyrir nýliðun í mörgum iðngreinum vegna aukinna umsvifa á vinnumarkaði, þá er meðalaldur í sumum þessara greina hár og margir munu því hverfa af vinnumarkaði á næstu árum. Á þetta m.a. við um húsasmíði, rafvirkjun, ýmsar greinar vél- og málmsmíði, pípulagnir og bíliðngreinar. Starfshópurinn leggur til að leitað verði leiða til að fleiri umsækjendur í þessar greinar fái skólavist.

Af 2.550 umsækjendum um skólavist í starfsnámi haustið 2022 fengu 2.026 skólavist og 485 fengu höfnun á skólavist. Flestir fengu höfnun um skólavist á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Tækniskólanum, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla, og að einhverjum hluta á Norðurlandi, einkum í Verkmenntaskólanum á Akureyri.

Flestum umsóknum var hafnað í húsasmíði og grunnnámi bygginga- og tæknigreina (141), því næst rafvirkjun og rafeindavirkjun (76), hönnun, tækni, tölvu og skyldum greinum (46), pípulögnum (41) og málmsmíði, vélstjórn og vélvirkjun (40). Fáum umsóknum var hafnað í umönnunar- og heilbrigðisgreinum.

Nýútskrifaðir grunnskólanemar fá forgang og komast langflestir að. Flestir sem fengu höfnun um skólavist eru eldri en 19 ára. Í húsasmíði og grunnnámi bygginga- og tæknigreina er hátt hlutfall þeirra sem fengu höfnun 30 ára og eldri (37%).

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila