Ætlar ekki að vera puntudúkka á Bessastöðum

Forsetinn hefur mun meiri völd en fólk heldur og þau þarf að nota til hins ítrasta til þess að veita fasta viðspyrnu við því sem aflaga er að fara í samfélaginu. Þetta segir Guðbergur Guðbergsson forsetaframbjóðandi en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Guðbergur segir að hann vilji verja orkuinnviði landsins og segir að í hans forsetatíð myndi hann ekki láta það viðgangast að orkuinnviðir yrðu seldir úr landi. Það myndi hann gera til dæmis með því að setja fjárlög í þjóðaratkvæðagreiðslu ef fram kæmi í þeim að selja ætti orkuinnviði.

Orkuinnviðir komast í hendur erlendra aðila

Hann segir það ákveðið vandamál að hér á landi séu orkuinnviðir oft seldir frá ríki yfir til innlendra einkaaðila sem síðan selja erlendum aðilum og þannig missi Ísland yfirráð yfir orkunni. Þetta hafi gerst í orkupakkamálinu.

Forsetinn á að beita sér meira en nú er gert

Hann segist hafa þá skoðun að forsetinn ætti að geta falið ráðherrum ákveðin verkefni og fari ráðherran ekki að vilja forseta geti forseti einfaldlega vikið ráðherranum úr embætti enda eigi ráðherran að framkvæma vald forseta. Stóra myndin er sú að forsetinn eigi að beita sér í meira mæli en nú er gert.

Guðbergur fer alla leið

Guðbergur segir að í gegnum tíðina hafi hann haft það þannig að þegar hann hafi tekið að sér verkefni þá fari hann alla leið með þau og það sé einmitt það sem hann ætli sér að gera í embætti forseta Íslands.

Framboð Katrínar svik við kjósendur

Hann segir það mikið vandamál að flokkarnir sem komist í ríkisstjórn á Íslandi svíki oftast kosningaloforðin og útspil Katrínar Jakobsdóttur að stökkva frá borði úr ríkisstjórninni frá ókláruðum verkum og í forsetaframboð sé í raun svik við kjósendur hennar.

ESB með bæði kosti og galla

Aðspurður um afstöðu sína til Evrópusambandsins segir hann að hann hafi ekki gert það upp með sér hvort hann sé með eða á móti, hann hafi bæði séð kosti og galla við Evrópusambandið og þetta sé eitthvað sem þurfi að leggjast yfir og gaumgæfa rækilega.

Þá segir Guðbergur að hann sé á móti vopnakaupum til handa Úkraínu en Ísland eigi þó að láta í sér heyra því þetta sé stríð innan Evrópu. Hvað varðar Gaza þá sé það í öðrum heimshluta og Ísland eigi ekki að skipta sér af því.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila